Jóla jóla jóla…… jólastress og hlaup og kaup!
Er ekki nær að njóta, jólin koma hvort eð er svo stressið er óþarft.
Ef við stöldrum aðeins við og spyrjum okkur að því hvernig aðventu vill ég eiga og hvernig jólahátíð?
Vill ég njóta eða nærist ég á stressinu og hlaupunum?
Hvað gerist ef ég baka bara ekkert og það er ekki hreint út í horn?
Ætli jólin hætti við að koma til mín!!
Nei blessuð jólin mæta á svæðið hvort sem það er skúrað út í horn eða ekki, bakaðar 18 sortir eða eina, keyrt á stressi eða slakað á.
Jólunum er alveg sama hvort krítarkortin sviðni undan því að eyða peningum sem eru ekki til eða hvort gefnar eru gjafir frá hjartanu.
Jólin bara mæta á svæðið óháð þessu öllu saman.
Svo valið stendur á milli þess að njóta eða stressast!
En hvernig sleppi ég stressinu…. Með því að anda og gera ekki óraunhæfar kröfur til þín, annara og jólahátíðarinnar.
Íhuga hvað er það sem raunverulega skiptir máli?
Hvernig er góður jólaandi að þínu mati?
Eru það dauðir hlutir eð eitthvað annað. Verður líf mitt fyllra ef ég fæ einn enn Ittala kertastjakan í jólapakka eða hvað. (hef ekkert á móti Ittala) Elskar fólkið mitt mig meira ef ég gef þeim dýra gjöf, þó ég hafi ekki efni á því!
Fyrir mig sjálfa skiptir samvera með mínum nánustu mesta máli, aðventan er góður tími til að skapa minningar. Heitt súkkulaði með rjóma og piparkökur úr búðinni við kertaljós skipta meira máli á aðventunni en að þrífa heimilið í drep.
Ég vill ljúfan jólaanda.
Aðventan er sá tími þar sem ég legg áherslu á að njóta og upplifa, skapa minningar til að ylja mér við seinna meir. Gefa minningar til annara um góða samveru og skilja eftir kærleika í stað veraldlegra hluta.
Gjafir gefnar með hjartanu skipta meira máli en að eyða umfram efni til þess að uppfylla einhver samfélagsleg viðmið. Bestu gjafirnar eru heimagerðar þar sem einhver hefur lagt kærleika og tíma sinn í að útbúa gjöf bara fyrir mig. Svo finnst mér samvera með fjölskyldu og vinum dýrmætasta gjöfin, hvað er dýrmætara en það.
Aðventan er líka sá tími þar sem ég legg meira á mig við að láta gott af mér leiða, gef það sem ég get til þess að styðja við þá sem styðja við fátæka. Að geta það er ein af stærri gjöfum sem ég fæ, því það er gjöf að gefa til góðs.
Ég hef ekki alltaf átt þennan jólaanda!
Nei aldeilis ekki, ég hef bakað 18 sortir, þrifið í drep og allt það sem áður er nefnt. Þá naut ég hvorki aðventunnar né jólanna, var bara dauðuppgefin þegar þau komu!
Í dag vel ég að anda og njóta.
Jólastressið:
Skoðum aðeins hverju það skilar okkur. Það er vitað að stress veldur vöðvabólgu, meltingatruflunum og svefnleysi svo eitthvað sé nefnt. Nú stress keyrir á hormóninu kortisól sem gerir okkur feit, erum við ekki að hamast við að komast í kjólinn um jólinn……
Anda og njóta
Kristín Snorradóttir
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!