Anna Wintour, ritstjóri Vogue skríkir eins og smástelpa á myndbandinu hér að neðan og sýnir svo ekki verður um villst að undir svörtum sólgleraugunum (sem hún að sjálfsögðu tók ekki niður fyrir ísfötuáskorunina) leynist flissandi og hrekkjótt stúlka sem hleypur um berfætt í sumarkjól þegar enginn sér til.
Ótrúlegt en satt, sjálf Anna Wintour, sem ofurmódelið Giselle Bündchen (ásamt söngkonunni Shakiru og hátískuljósmyndaranum Mario Testino) skoraði á hólm í ísfötukeppninni, lét sig ekki muna um að setjast niður með fjölskyldu sinni og eftir stuttlega kynningu æpti Anna upp yfir sig og hljóp undan ískaldri fötunni sem var full af vatni.
En allt í góðu gamni, ískaldi ritstjórinn undirgekkst niðurlæginguna sem fólgin er í ísfötuáskoruninni í þeim erindagjörðum að vekja athygli á baráttumarkmiðum ALS Association í Bandaríkjunum, en það munu þverfagleg samtök sem starfa í þágu þeirra sem greinst hafa með Lou-Gehrig sjúkóminn.
Ísfötuáskorunin, sem er bókstaflega að gera allt vitlaust í Bandaríkjunum, snýst ekki bara um að sulla klökum yfir höfuð fólks, heldur er um afar vel heppnaða fjáröflunaráskorun að ræða sem hefur þegar skilað yfir 13 milljónum Bandaríkjadala þegar þetta er ritað.
Krúttlegt!
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.