App vikunnar: Ekki hringja í fyrrverandi undir áhrifum!

Kenneríissímtöl. Hver kannast ekki við vandann? Örlítill dreitill af léttvíni, ljúf og hugguleg tónlist, farsíminn innan seilingar og BINGÓ … því að sitja í einsemd heima við meðan heimurinn bíður í ofvæni hinu megin við línuna?

Var ekki eitthvað ósagt við fyrrverandi? Hvað með vinnufélagana? Hressir um helgar? Æskuvinir? Jú. Óstaðfestar heimildir herma að um 95% farsímaeigenda hafi gerst sekir um einmitt slík símtöl einhverju sinni á ævinni. Alveg er það einkennilegt hvað fólki þykir oft huggulegt að taka upp tólið og hringja eins og nokkur símtöl þegar farið er að nálgast botninn á léttvínsflöskunni. Og segja frá öllu.

ÖLLU!

liz-lemon-drunk

Vandann (sé hann fyrir hendi á annað borð) má leysa með lítilli fyrirhöfn, að því gefnu að þú notist við farsíma (og eingöngu farsíma) því staðan getur ekki bara risið á Íslandi, heldur víða um heim. Drunk Dialling eins og Kaninn kallar hegðunarmynstrið á sér stað hverja einustu helgi. Víðsvegar um hinn siðmenntaða heim. Og við þessu er bara eitt að gera: Hlaða niður appi sem gerir þér kleift að stoppa vitleysuna af. Kæfa vandræðaganginn í fæðingu. Og slaka á afsökunarrununni þegar næsti dagur rís.

Hér fara nokkur nytsamleg farsímaöpp fyrir þá sem þekkja vandann:

Drunk Dial! NO! – sérsniðið lítið app sem felur ákveðna tengiliði í símaskránni um valið tímaskeið; allt frá 1 og upp í 48 klukkustundir. Þú velur tengiliðina og appið sér um rest. Að umræddum tíma liðnum aflæsist símaskráin aftur og tekur á sig eðlilega mynd. Hægt er að setja tengiliði í hópa og skýra nöfnum á borð við: BANNLISTI LAUGARDAGS og svona mætti lengi áfram telja. Einnig er hægt að stilla símann þannig að þú fáir skilaboð sem þú hefur skrifað; allt að sjö klukkustundum fram í tímann. Varnaðarorð, heilræði, hvað sem helst. Þú velur.

Dial Hours gerir þér kleift að setja tengiliði í dulkóðaða hópa sem er einungis hægt að opna og nálgast á sérvöldum tímum dags. Þetta litla app kemur ekki bara í veg fyrir vandræðaleg símtöl um helgar, heldur hindrar líka að þú rekist í takkann fyrir slysni og hringir jafnvel í yfirmanninn klukkan níu á þriðjudagskvöldi – allt án þess að ætla þér það. Þú tímastillir einfaldlega viðeigandi samskiptatíma og svo sér appið um rest.

 

The Drunk Mode er krúttlegt lítið app sem þjónar tvennum tilgangi, læsir símaskránni þinni meðan á partýinu stendur OG getur þjónað sem handhægur GPS sem gerir þér kleift að finna vini þína, ef þið verðið viðskila hver við annað meðan á partýinu stendur. Þetta litla app getur sent þér skilaboð af og til, sem minna t.a.m. á að setjast ekki undir stýri undir áhrifum, láta Facebook vera og …. þú skilur.

 

Taxometer – Því allir verða að komast heim að lokum og ekki allir djamma í Reykjavík. Þetta litla app gefur þér grófa mynd af því hvað leigubíll heim kostar og það í öllum helstu stórborgum heims. Er ferðinni heitið út fyrir landsteinana um helgina? Nældu þér í appið; láttu það reikna út fyrir þig leigubílafargjöld í yfir 300 borgum í 35 löndum víðsvegar um jarðarkringluna. Láttu bara vaða, nældu í þetta stórsniðuga app ef ferðinni er heitið í helgarreisu og í guðs bænum láttu bílaleigubílinn vera ef þú ert búin/n að fá þér í glas. Það er svo miklu ódýrara að koma heim í einu lagi.

 

SHARE