Aspassúpa – Vinsæll forréttur um hátíðirnar

Þessi æðislega súpa kemur frá Café Sigrún og gæti hentað svakalega vel sem forréttur um jólin.
asparssupa_2

Asparssúpa

Fyrir 2

Innihald

  • 1 msk kókosolía
  • 3 msk spelti (má nota hrísmjöl ef þið hafið glúteinóþol)
  • 350 ml léttmjólk (gæti verið að þurfi minna)
  • 1 gerlaus grænmetisteningur
  • 2 x 400 g dósir grænn aspars (önnur dósin má vera bútar), safinn er notaður
  • Smá klípa svartur pipar
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð

  1. Hellið safa af annarri dósinni í skál og setjið til hliðar.
  2. Maukið í matvinnsluvél, asparsinn úr þeirri dós sem þið voruð að hella safanum af. Setjið maukið til hliðar.
  3. Hrærið saman kókosolíu og spelti þangað til blandan líkist deigi. Gott er að hræra í lítilli en djúpri skál. Bætið 150 ml af mjólkinni út í skálina, smá slettu í einu og hrærið þangað til deigið verður nánast fljótandi. Setjið speltblönduna í pott. Bætið smátt og smátt 100 ml af mjólkinni, til viðbótar út í súpuna. Hrærið allan tímann.
  4. Bætið grænmetisteningi út í og hrærið hann vel út.
  5. Bætið maukaða asparsinum út í og hrærið vel. Bætið meiri mjólk út í súpuna ef þið viljið hafa hana þynnri.
  6. Rétt áður en súpan er borin fram skuluð þið bæta asparsinum og vökvanum úr hinni dósinni út í súpuna. Hitið en hrærið ekki mikið (svo asparsinn verði ekki að mauki).
  7. Kryddið með svörtum pipar og salti ef þarf.

Gott að hafa í huga

  • Berið fram með snittubrauði.
  • Súpuna má gera mjólkurlausa með því að nota hrísmjólk, haframjólk, möndlumjólk eða sojamjólk.
  • Einnig má nota hafrarjóma til að fá súpuna mjög þykka. Athugið að hafrar innihalda glútein.
  • Nota má hrísmjöl, maísmjöl eða kartöflumjöl í staðinn fyrir spelti.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.

Café Sigrún á Facebook

SHARE