Ef þú spyrð par sem hefur verið saman í mörg ár “hvernig farið þið að þessu?” er svarið oftar en ekki “þetta er vinna, en þess virði” eða eitthvað í þá áttina. Það er alveg rétt held ég, fólk þarf að aðlaga sig að hvort öðru og saman vinnum við að því að öllum líði sem best í sambandinu, eða svoleiðis á það að vera.
Hér er listi yfir nokkur atriði sem ég tel að geti verið eitrandi í sambandi.
1. Að búast við því versta
Ef við erum alltaf að væna maka okkar um eitthvað, erum við að sýna honum það að við treystum honum ekki. Samband byggist á trausti og ef við erum alltaf tilbúin að trúa því allra versta upp á maka okkar er það líklega eitthvað sem við þurfum að skoða. Það er líka bara hægt að setja þetta svona upp, fyndist þér það í lagi að þú gætir ekki fengið vinabeiðni á Facebook án þess að vera vænd/ur um framhjáhald? eða ef þú hefðir verið of lengi inn á klósetti á skemmtistað (hugsanlega lent á spjalli við vinkonu) og makinn þinn færi að yfirheyra þig um hvað hefði nú eiginlega bara verið í gangi inn á klósetti. Þetta er ekki kúl og gerir ekkert annað en að eyðileggja sambandið. Hafðu góða ástæðu áður en þú ferð að saka makann þinn um hitt og þetta
2. Þú hættir að rækta sambandið
Í byrjun sambands eruð þið alltaf að gera eitthvað fyrir hvort annað, það þarf ekki að vera nema bara koma með hrós eða senda “skemmtileg” skilaboð yfir daginn.. ég held það sé alltaf mikilvægt að halda áfram að láta maka þinn finna fyrir því að þú takir honum ekki sem sjálfsögðum hlut.
3. Að hliðra ekki til.
Fólk þarf oft að hliðra einhverju til fyrir sambandið. Þér kannski finnst ótrúlega leiðinlegt að horfa á fótbolta eða fara í golf en af því að manninum þínum finnst það alveg æðislegt og vill endilega fá þig með þá er allt í lagi að láta sig hafa það að fara stundum með í golf OG ekki vera með fílusvip allan tímann. Hann gerir þá bara það sama fyrir þig næst þegar þig langar að fara í spa, út að hjóla eða í fjallgöngu!
4. Dömparinn
Þetta á við um þá sem að segja maka sínum upp í nánast hverju rifrildi. Ef eitthvað kemur upp liggur við að taskan sé alltaf tilbúin út í horni og makinn tilbúinn fyrir brottför. Það er svo oft þannig að fólkið er tilbúið að “hætta með” maka sínum, en einungis vegna þess að það veit að maki þeirra mun alltaf reyna að fá þá aftur. Það eru svo til dæmi um það að á endanum hafi makinn bara fengið nóg, þá snýst dæmið við, þá er sá sem fór einmitt sá sem kemur skríðandi til baka. Það getur ekkert samband þroskast og dafnað ef annar aðilinn þarf alltaf að tipla á tánum vegna hræðslu um að vera “dömpað”
Svo má lengi telja. Endilega bættu við listann