Átröskun er sjúkdómur ekki hegðunarvandamál

Átröskunum fylgir mikil andleg vanlíðan samfara óánægju með líkamlegt útlit. Sjúklingurinn verður heltekinn af hugsunum um mat og þyngd og hræðslu við að borða. Jóhanna Ingvarsdóttir komst að því að ef gripið er nógu snemma inn í sjúkdómsferlið með ráðgjöf, stuðningi og meðferð má oft koma í veg fyrir að sjúkdómurinn þróist á alvarlegri stig.

Átraskanir eru flóknir, erfiðir og langvinnir geðsjúkdómar, sem læknast ekki af sjálfu sér. Sjúklingarnir upplifa mikla innri togstreitu gagnvart meðferð. Mjög mikilvægt er að greina sjúkdóminn og meðhöndla sjúklinginn snemma til að draga úr hættu á alvarlegum afleiðingum því sjúkdómurinn getur svo sannarlega verið lífshættulegur,“ segir Kolbrún Marelsdóttir, framhaldsskólakennari og varaformaður Spegilsins, fræðslu- og forvarnasamtaka um átröskunarsjúkdóma.

Kolbrún er ein þriggja kvenna í átakshópi Spegilsins sem heldur fræðslufyrirlestra í skólum fyrir starfsfólk og foreldra, en sjálf á hún dóttur, sem glímdi við alvarlega átröskun fyrir fjórum árum síðan og var nánast við dauðans dyr. Nú er dóttirin hinsvegar orðin tvítug og búin að ná góðum bata. Hún er á fyrsta ári í verkfræði við Háskóla Íslands, orðin félagslega virk og býr á Stúdentagörðunum.

Þrjátíu kíló á níu mánuðum

„Þetta segir okkur að það er von, þótt þetta ferli hafi allt verið mjög erfitt, bæði fyrir dótturina og okkur hin í fjölskyldunni, en dóttirin er næstelst fjögurra systkina. Dóttir mín léttist um þrjátíu kíló á níu mánuðum þegar hún var í tíunda bekk. Hún fór á þessu tímabili úr 67 kílóum í 37 kíló um vorið og var þá orðin alveg rosalega veik. Engu að síður fékk hún verðlaun í þremur greinum fyrir að hafa fengið 10 í samræmdu prófunum þótt hún hafi varla getað gengið undir sjálfri sér. Þegar hún var búin að missa fyrstu tíu kílóin fékk hún ómælda athygli út á það hvað hún væri æðislega flott pía og hún fílaði þessa athygli í botn.

Megrunaráráttan stoppaði ekkert við þetta heldur hélt bara áfram og þá sáum við hættumerkin allt í kring. Hún var búin að taka bæði sykur og mjólkurvörur út úr fæðunni og var orðin mjög einhæf í fæðuvali. Einn morguninn fundum við hana á sturtugólfinu án lífsmarks, en við náðum að koma henni í gang á ný sem varð til þess að hún byrjaði bataferlið hægt og sígandi, orðin 37 kíló. Þarna var vendipunkturinn, hún viðurkenndi veikindin, en það er eins og þessir sjúklingar þurfi að snerta botninn til þess að ná að rífa sig upp á ný þótt alls ekki allir nái því.“

Líf fjölskyldunnar fór að snúast um veiku stúlkuna í fjölskyldunni og foreldrarnir áttu sér ekkert líf fyrir utan sjúkdóminn ef frá er talin atvinnuþátttaka. „Við skiptumst á að vakta dóttur okkar allan sólarhringinn og nutum líka góðs stuðningsnets fjölskyldunnar á þessum erfiðleikatímum enda vorum við staðráðin í að koma barninu okkar til heilsu á ný. Hún svaf illa á nóttunni, var sífellt kalt og grét ofboðslega mikið. Erfiðar tilfinningar brutust um innra með henni og hún varð afskaplega vansæl yfir því að vera að bregðast okkur. Matartíminn hennar varði kannski í tvo til þrjá tíma og þegar upp var staðið var hún kannski búin að borða hálfa kjötbollu í þúsund bitum, sem hún tuggði út í eitt. Einn bróðirinn flutti tímabundið til afa og ömmu þar sem hann var hættur að geta horft upp á systur sína svona veika. Jólin, sem eru að öllu jöfnu mikil áthátíð, voru skelfilegur tími. En í staðinn fyrir að láta reiði og hótanir bitna á sjúklingnum er farsælla að tala tæpitungulaust um sjúkdóminn og sýna væntumþykju þó að barnið manns reyni í lengstu lög að þræta fyrir ástandið.“

Að sögn Kolbrúnar greinast sífellt yngri einstaklingar með átröskun. Yngsti átröskunarsjúklingur, sem lagður hefur verið inn á BUGL, var átta ára gamall og svo virðist sem leikskólabörnum sem hafa áhyggjur af holdafari sínu fari fjölgandi. „Það eru því miður misvísandi skilaboð, sem klingja úti í þjóðfélaginu öllu, sem snúast um það að börn þurfa að borða hollt til að vera mjó. Réttu skilaboðin, sem þurfa að ná eyrum barna og unglinga, eru hinsvegar þau að þau þurfi að borða hollt til þess að vera heilbrigð. Á þessu tvennu er mikill munur.“

Sjálfsómynd og sífelld megrun

Lystarstol (anorexia nervosa)og lotugræðgi (bulimia nervosa) eru alvarlegir geðrænir sjúkdómar, sem einkennast af sjúklegum ótta við að þyngjast og hræðslu við að missa stjórn á mataræðinu. Helsti munurinn á lystarstoli og lotugræðgi er sá að sjúklingar með lystarstol eru verulega vannærðir á meðan lotugræðgisjúklingar eru um eða yfir kjörþyngd.

Einstaklingum með þessa sjúkdóma finnst þeir oft vera þyngri en þeir eru og þeir hafa lélega sjálfsmynd. Til að styrkja hana eru þeir í sífelldri meg run og leita allra leiða til að létta sig óháð því hver þyngdin er. Þetta leiðir til þess að einstaklingurinn verður vannærður og getur fengið alvarlega líkamlega og andlega fylgikvilla. Einkenni sjúkdómanna tveggja eru mörg þau sömu, en stundum skiptast á tímabil lystarstols og lotugræðgi hjá sama sjúklingi.

Afleiðingar og fylgikvillar

Átröskun leggst aðallega á ungar konur á aldrinum 15 til 24 ára og veikist um helmingur innan 18 ára aldurs. Á hverjum tíma er áætlað að a.m.k. 0,5% ungra kvenna á Vesturlöndum séu með lystarstol og um 1,5% með lotugræðgi Gróflega má því áætla að um 460 ungar konur séu með lystarstol eða lotugræðgi hérlendis á hverjum tíma, ef frá eru taldir einstaklingar með vægari eða blandaðar átraskanir. 5-15% þeirra, sem greinast með átraskanir, eru karlkyns.

Áhættuþættir átraskana eru margir, en rannsóknir styðja að þættir á borð við erfðir, megrun, áföll í lífinu og mikla íþróttaiðkun sem kallar á nettan líkama, svo sem iðkun fimleika, balletts og dans, geti verið orsakavaldar. Því fyrr sem sjúkdómurinn uppgötvast, því meiri líkur eru á bata. Rannsóknir hafa sýnt að um helmingur lystarstolssjúklinga nær bata fimm árum eftir greiningu. Horfur eru slæmar hjá um 20% lystarstolssjúklinga og um 10% deyja innan 10 ára frá greiningu. Lotugræðgi er einnig langvinnur sjúkdómur, en dánartíðnin er mun lægri.

Nauðsynlegt er talið að grípa inn í sjúkdómsferlið sem fyrst með því að leita meðferðar hjá lækni eða sálfræðingi, verði átröskunar vart, því afleiðingar þessa langvinna sjúkdóms geta verið alvarlegar fái hann að þróast óáreittur. Fylgikvillar átraskana geta verið misnotkun á áfengi og lyfjum og þunglyndi með sjálfsvígshugsunum auk líkamlegra afleiðinga á borð við beinþynningu, hjartsláttaróreglu og nýrnaskemmdir.

Í hnotskurn

Spegillinn var stofnaður árið 2002 í minningu Gerðu Bjargar Sandholt, sem lést 26 ára gömul af völdum átröskunarsjúkdóms.
Samtökin voru stofnuð af aðstandendum og er tilgangur þeirra að beita sér fyrir bættum meðferðarúrræðum, forvörnum og aukinni fræðslu.
Talið er að í kringum sextíu manns greinist með átröskun hér á landi á ári hverju.
Einstaklingar, sem greinast með átröskun, verða sífellt yngri. Dæmi er um að átta ára barn hafi verið lagt inn á BUGL með átröskun auk þess sem dæmi eru um að leikskólabörn hafi áhyggjur af holdafari sínu.

 

Einkenni lystarstols

  • Merki um minni fæðuinntöku, t.d. ströng megrun eða fasta.
  • Undarleg hegðun í kringum mat, t.d. að telja matarbitana á disknum, vera lengi að borða, skera matinn í litla bita, laga mat fyrir aðra en neita að borða með.
  • Mikill ótti við að fitna, óháð líkamsþyngd.
  • Hræðsla við mat og aðstæður þar sem boðið er upp á mat.
  • Óhófleg líkamsrækt eða hreyfing.
  • Að klæða sig í margar flíkur til að fela þyngdartap.
  • Átköst.
  • Misnotkun á hægðalyfjum eða þvagræsilyfjum til að reyna að stjórna þyngd.

Líkamleg merki

  • Þyngdartap, oft á stuttum tíma.
  • Tíðablæðingar hætta.
  • Fölvi og blámi í útlimum.
  • Þolir illa kulda.
  • Svimi og yfirlið.

Sálrænar breytingar

  • Geðsveiflur og þunglyndi.
  • Fullkomnunarárátta.
  • Óöryggi um eigin getu þótt allt gangi vel.
  • Sjálfsmat er háð fæðuinntöku og fæðuvali.
  • Einangrar sig frá öðru fólki.
  • Eirðarleysi og svefntruflanir.

Einkenni lotugræðgi

  • Átköst. Matur og sætindi hverfa úr eldhússkápnum.
  • Borðar í laumi og missir úr máltíðir.
  • Hugsar og talar stöðugt um mat og líkamsþyngd.
  • Forðast veitingastaði, matarboð og veislur þar sem matur er á boðstólum.
  • Niðurbrot ef of mikið er borðað.
  • Fer á salerni strax eftir máltíð.
  • Kastar upp eftir máltíð, misnotar hægðalyf eða fastar.
  • Notar megrunarlyf.
  • Mikil og óhófleg líkamsrækt.
  • Ótti við að fitna, óháð þyngd.

Líkamleg merki

  • Bólgnir munnvatnskirtlar undir kjálkum eða litlar húðblæðingar undir augum.
  • Hálssærindi.
  • Þreyta og vöðvaverkir.
  • Magaverkir, bakflæði eða óregla á hægðum.
  • Óútskýrðar glerungsskemmdir á tönnum.
  • Algengar þyngdarsveiflur.
  • Tíðatruflanir og ófrjósemi.

Sálrænar breytingar

  • Geðsveiflur með þunglyndi, depurð, sektarkennd og sjálfshatri.
  • Mikil sjálfsgagnrýni.
  • Hefur þörf fyrir viðurkenningu.
  • Sjálfsvirðingin er háð líkamsþyngdinni.

 

Fleiri heilsutengdar greinar á doktor.is logo

SHARE