Átröskun og íþróttir

Átröskun er alvarlegt sálrænt vandamál, sem getur valdið heilsutjóni eða jafnvel dauða – beint eða óbeint. Átröskun birtist í mismunandi myndum og er henni skipt í tvo meginflokka: lystarstol (anorexía) og lotugræðgi (bulimía). Þar að auki er talað um létta átröskun þegar hegðun hefur ákveðin einkenni hinna flokkanna, en ekki nægjanlega mikil til að hljóta þá greiningu.

Átröskun er algengari hjá konun en körlum og kemur venjulega fram á unglingsaldri. Hún er algengari meðal íþróttafólks en annarra þjóðfélagshópa og einkum í íþróttum þar sem líkamsvöxtur skiptir miklu máli, t.d. fimleikum, listhlaupi á skautum og dansi. Sálrænir þættir geta einnig valdið offitu og offita getur því einnig talist vera átröskun. Hér á eftir verður ekki fjallað frekar um offitu, þar sem sú tegund átröskunar þekkist varla meðal íþróttafólks.

Lystarstol (anorexía)

Lystarstolssjúklingur neitar að borða og forðast alfarið fitandi fæðu. Líkamsþyngd hans er að minnsta kosti 15% undir meðalþyngd. Lystarstolssjúklingur hefur skerta líkamsímynd, finnst hann vera of feitur og hræðist að fitna. Sjálfsímynd hans er óeðlilega háð líkamslögun og þyngd. Lystarstolssjúklingur léttist mjög hratt og nær því athygli umhverfisins fljótt. Við mikið þyngdartap minnkar hæfni líkamans til að halda á sér hita. Því má oft sjá kaldar og bláar hendur og fætur hjá lystarstolssjúklingum, auk þess sem fíngerð hár fara að vaxa á líkamanum til að minnka hitatap. Röskun getur orðið á starfsemi innkirtla, sem hefur í för með sér truflanir á blæðingum, minnkaða kyngetu og kynþörf. Truflanir á blæðingum geta leitt til beinþynningar sem auka hættu á álagsbrotum hjá íþróttakonum. Lystarstolssjúklingur leiðist oft út í hegðun sem er einkennandi fyrir lotugræðgi.

Lotugræðgi (búlimía)

Lotugræðgissjúklingur fær átköst í það minnsta tvisvar í viku og er þá knúinn áfram af sterkri innri hvöt til að borða. Fæðunni er svo skilað aftur með uppköstum eða með öðrum leiðum (hægðalyf, megrunarlyf, fasta). Lotugræðgissjúklingur hefur ranghugmyndir um líkama sinn og hræðist að fitna. Sjálfsmynd hans er óeðlilega háð líkamslögun og þyngd. Þyngd hans sveiflast hins vegar til vegna þess að tímabil með átköstum og föstum skiptast á. Átköstin og meðfylgjandi hegðun fara fram í felum og eru gjarnan sveipuð dulúð, sem gerir það að verkum að lotugræðgissjúklingur er ekki eins sýnilegur umhverfinu og lystarstolssjúklingur. Sífelld uppköst valda röskun á efnabúskap líkamans, sem m.a. getur valdið slappleika og óreglu í hjartslætti. Einnig má sjá skemmdir á glerungi tanna. Oft má sjá hjá lotugræðgissjúklingum öfgar í líkamsrækt, einbeitingarskort, óeðlilega mikinn metnað og fullkomnunaráráttu.

Tíðni átröskunar

Ekki eru til upplýsingar um tíðni átröskunar meðal Íslendinga en fjölmargar erlendar rannsóknir varpa ljósi á tíðni kvillans. Í rannsókn, sem gerð var á 2500 einstaklingum í Noregi árið 1994, reyndist tíðni átröskunar meðal almennings vera 8,7%, sem skiptist þannig:

Lotugræðgi 1,6%
Lystarstol 0,4%
Létt átröskun 3,5%
Offita 3,2%

Önnur rannsókn, sem gerð var á 522 norskum íþróttastúlkum í fremstu röð árið 1991, sýndi að tíðni átröskunar meðal þeirra var 18%. Tíðnin var hæst meðal fimleikastúlkna, ballett- og skautadansara, en hátt í helmingur þeirra uppfyllti skilyrði þess að greinast með átröskun.

Árið 1996 var gerð rannsókn á 200 íslenskum fimleikaiðkendum, 12 ára og eldri, í þeim tilgangi að varpa ljósi á tíðni og orsakir átröskunar meðal fimleikaiðkenda. Tíðni átröskunar reyndist vera 17,1% og voru léttar átraskanir lang algengastar. Um helmingur aðspurðra taldi sig vera of feita, þó um 90% þeirra væru undir meðallagi í þyngd.

Orsakir átröskunar

Margar og mismunandi orsakir geta legið að baki átröskun. Orsakirnar eru ekki alltaf skýrt afmarkaðar, en meðal sterkra orsakaþátta má nefna tengsl barna við umhverfi sitt, almennar uppeldisaðstæður, líffræðilegar breytur og ofuráherslu á grannt vaxtarlag kvenna, sem er ríkjandi í vestrænum þjóðfélögum.

Ólíklegt er talið að félagslegar aðstæður geti einar valdið alvarlegri átröskun því ef betur er að gáð, má sjá að þær eru sjaldnast frumorsök vandamálsins. Félagslegar aðstæður, t.d. mikið tilfinningalegt álag, miklar kröfur um árangur eða mikil óvissa, geta hins vegar hrundið vandanum af stað.

Til þess að útskýra orsakir tiltölulegra hárrar tíðni átraskana meðal íþróttafólks er nauðsynlegt að skoða hvaða þættir það eru í umhve rfi íþróttafólksins sem hafa áhrif á þróun átröskunar.

Sérstök áhersla er lögð á tvo sterka félagslega áhættuþætti:

  • Miklar kröfur um að vera grannur
  • Miklar kröfur um að standa sig vel

Í íþróttum eru þessir áhættuþættir gjarnan báðir til staðar samtímis. Í öllum íþróttum eru gerðar einhvers konar kröfur um árangur og í sumum íþróttum er auk þess oft lögð nokkur áhersla á grannan líkamsvöxt, t.d. í fimleikum, ballett og skautadansi. Eins og fyrr er getið sýna rannsóknir að tíðni átröskunar er mest í þessum íþróttum, þó hún sé einnig meiri í sumum öðrum íþróttum en meðal almennings. Fyrrnefnd rannsókn á íslenskum fimleikaiðkendum sýndi að miklum meirihluta þeirra (96%) finnst þeir vera undir miklum eða töluverðum þrýstingi frá þjálfara um að vera grannur og hluti þeirra (25%) er þeirrar skoðunar að þjálfarinn geri mjög eða töluvert óraunhæfar kröfur til þeirra varðandi getu í íþróttinni. Af þessu má draga þá ályktun að í félagslegum aðstæðum íþróttaiðkenda felist nokkur áhætta á þróun átröskunar.

Samantekt

Félagslegar aðstæður íþróttafólks geta líklega ekki einar sér valdið alvarlegri átröskun. Þær geta þó hugsanlega einar sér valdið léttri átröskun og hrundið af stað alvarlegri átröskun. Þó átröskun sé alltaf margþættur og djúpstæður vandi, er full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart félagslegum orsökum hennar í umhverfi íþróttafólks.

Góð ráð til þjálfara og foreldra

  • Viðurkennið og virðið tilfinningar, langanir og líðan iðkendanna. Gagnkvæm virðing er forsenda jákvæðra samskipta.
  • Hlustið á iðkendurna, viðurkennið og virðið sjónarmið þeirra, styðjið þá og hjálpið þeim að koma orðum að tilfinningum sínum og líðan.
  • Varist niðurlægjandi athugasemdir um vaxtarlag, óhóflega gagnrýni og óraunhæfar kröfur um frammistöðu.
  • Þið eruð mikilvægar fyrirmyndir, nýtið ykkur það á uppbyggjandi hátt.
  • Kynnið ykkur einkenni átröskunar og bregðist strax við ef vandinn er til staðar.

Góð ráð til iðkenda

  • Hlustið á eigin þarfir og tilfinningar – þið eigið rétt á að vera eins og þið eruð.
  • Takið sjálfstæðar ákvarðanir varðandi eigið líf.
  • Ef ykkur líður illa og haldið að þið séuð haldin átröskun, talið þá um líðan ykkar við einhvern sem þið treystið, foreldra, vini, þjálfara, kennara, námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðing.

Hvað er til ráða ef vandinn er fyrir hendi?

Ef augljóst er að um átröskun sé að ræða er nauðsynlegt að grípa strax til aðgerða. Þjálfari eða einhver annar sem þekkir iðkandann vel gegnir lykilhlutverki. Talið við iðkandann og náið trausti hans, auk þess að ræða við foreldrana. Hægt er að leita til eftirtalinna aðila:

  • Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans
  • Göngudeildar geðdeildar Landspítalans
  • Skólahjúkrunarfræðinga
  • Heimilislækna
  • Sálfræðinga við skóla og félagsmálastofnanir
  • Sjálfstætt starfandi sálfræðinga og lækna

 

Fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

 

Tengdar greinar:

12 stúlkur sem hafa náð bata frá átröskunum

Kate Hudson þvertekur fyrir það að þjást af átröskun

Reynsla rauðhærðu stúlkukindarinnar af átröskun

SHARE