Við Íslendingar erum að mínu mati frekar snobbuð þegar kemur að atvinnumálum. Það er allt í lagi að vinna við hvað sem er meðan þú ert í framhaldsskóla en eftir það áttu að fara að feta þig í átt að framtíðarstarfinu. Það þykir til dæmis ekki töff að vinna í ísbúð ef maður er orðin fimmtugur (nema að þú eigir búðina) eða á kassa í matvörubúð eftir fertugt. Auðvitað spilar inn í að það er ekki hægt að lifa á lágmarkslaunum á Íslandi nema maður búi enn í foreldrahúsum en það er efni í annan helmingi lengri pistil.
Ef maður fer til annarra landa í heiminum þá viðgengst ekki sama snobbið þar og ég sá það í nýlegri ferð minni til erlendis. Ég sá eldri menn sem unnu við það að raða í poka fyrir fólk á kassa og þeir sinntu því starfi vel, svo sá ég mann um fertugt sem stóð úti á götu með Húlahring og skilti til að auglýsa veitingastaðinn sem hann starfaði á og á öðru hverju götuhorni var fólk með svona auglýsingar að auglýsa allskonar þjónustu, klippingar, bílaþvott og fleira. Ég sá konu um fimmtugt sem vann við það að láta sæljón sýna listir sínar, aðra konu á miðjum aldri klædda í litríkan búning að afgreiða á kassa í leikfangabúð og tala með barnarödd við alla krakka sem komu að versla og svona mætti lengi telja. Getið þið ímyndað ykkur fólk sem þið þekkið sem er á miðjum aldri í svona störfum á Íslandi? Að pabbi ykkar eða maki væri með húlahring fyrir utan veitingastað að auglýsa staðinn? Ég á erfitt með að sjá þetta fyrir mér en svo eru örugglega einhverjir sem hafa svörin við þessu og tengja þetta ekki snobbi heldur bara metnaði og að við Íslendingar séum svo vel menntuð og svo framvegis.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.