Aukin orka-meiri gleði

Margir halda að það sé óyfirstíganlegt að breyta mataræði sínu og lífstíl, en svo er aldeilis ekki.

Í dag eru heilsubúðir á öðru hverju götuhorni og hillur stórmarkaðanna svigna undan lífrænum heilsuvörum, úrvalið er nóg.

Við þurfum þó að gefa okkur tíma til að skoða þessar vörur því þær eru oft á tíðum í umbúðum sem við ekki þekkjum og hafa annað útlit en þessar “hefðbundnu” vörur.

Við gefum forvitninni svigrúm, grúskum aðeins í hillunum og njótum þess að skoða nýja hluti!

Hér á eftir fer listi með nokkrum atriðum sem geta nýst ykkur til að öðlast meiri orku.

Góð ráð fyrir þá sem vilja koma orkunni í lag

Borðið helst þrjár máltíðir og eina til tvær millimáltíðir á dag.

Borðið alltaf morgunmat.

Sleppið öllu nasli eftir kvöldmat. Það truflar nætursvefninn.

Skerið niður neyslu á óhollri fitu, þ.e.a.s. dýrafitu og illa unnum jurtaolíum.

Notið eingöngu kaldhreinsaðar olíur (t.d. ólífuolíu) og nóg af þeim! Það er gott að taka inn hörfræolíu, fiskiolíu (t.d. laxaolíu), eða blandaðar fræolíur (omega 3-6-9). Mannslíkaminn þarf góða fitu til að halda orku.

Aukið neyslu grænmetis, bauna og óunnins korns.

Prufið nýjar korntegundir eins og spelt, bókhveiti, hrísgrjónamjöl,maismjöl og fl.

Sleppið hvítu hveiti og öðru hvítu hreinsuðu korni eins og kostur er. Það er hægt að fá nýbökuð dásamlega góð brauð úr heilkorni daglega í öllum heilsubúðum sem og víðar.

Minnkið sykurneyslu og sleppið honum helst alveg (hvítur sykur verstur). Nýtið ykkur náttúrulegan sykur s.s. ávexti, sýróp (t.d. agave) og hunang. Það er í flestum tilfellum hægt að nota í bakstur í stað hefðbundins sykurs.

Drekkið nóg vatn, helst um 1½ – 2 lítra á dag.

Sleppið eða minnkið neyslu alkóhóls.

Sleppið eða minnkið kaffidrykkju.

Drekkið jurtate í staðinn. Það eru til margar virkilega spennandi tegundir og um að gera að sleppa sér lausum í bragðprófanir.

Ef þið hafið óþol fyrir einhverjum fæðutegundum reynið þá að forðast þær af fremsta megni.

Það getur verið gott fyrir flesta að taka vítamínkúr (t.d. fjölvítamín, B-vítamín, D-vítamín og fl.) Best er að fá ráðleggingar frá næringarþerapista varðandi það.

Hugið að meltingunni. Aukið trefjaneyslu og prófið ýmis bætiefni sem geta hjálpað (s.s. meltingarfæragerla og meltingarensím).

Notið hnetur, fræ, grænmeti og ávexti, sem millimáltíðir(ath.ekki mikið magn af hnetum, 10-15 stk. í senn).

Einnig fást ýmis heilsustykki í heilsubúðum og stórmörkuðum. Lesið þó alltaf innihaldslýsinguna. Sum innihalda mikinn sykur.

Stundið einhverja líkamsrækt í því formi sem hentar og þið ráðið við.

Iðkið markvissa slökun, s.s. hugleiðslu af einhverju tagi eða yoga.

Passið að fá nægan og góðan svefn!

Að lokum:

Munið að enginn lifir á fullkomnu mataræði, það er einfaldlega ekki til!

Þið gerið eins vel og aðstæður leyfa og reynið að finna hvað hentar ykkur, hvað ykkur líður vel með og forðist að láta þessar breytingar valda streitu í lífinu.

Þá er til lítils unnið!

Njótið lífsins :o)

Með heilsukveðju,

Inga Kristjánsdóttir

næringarþerapisti D.E.T.

 

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

SHARE