“Mér finnst svo óendanlega skemmtilegt að hanna og skapa skemmtilegt umhverfi fyrir barnamyndatökur. Og mér finnst enn skemmtilegra þegar ég get hrint af stað ákveðinni bylgju, fengið annað fólk til að taka þátt í vitleysunni með mér” viðurkennir listræni stjórnandinn og mömmubloggarinn Ilana Wiles sem búsett er í New York.
Ilana hefur hlotið talsverða athygli fyrir uppátæki sín, sem hafa hrifið fjölda fólks með gegnum netið og þær eru ófáar mæðurnar sem hafa fetað í skapandi fótspor Ilönu og birt myndir af nýfæddum börnum sínum í alltof stórum, afkáralegum jakkafötum á Instagram undanfarnar vikur.
Þetta er ekki fyrsta vitleysan sem Ilönu dettur í hug, en hún hratt af stað hinu alræmda #babymugging trendi fyrir skömmu og ma skoða á Instagram – en #babymugging er leikur að hlutföllum og snýst um að láta líta svo út fyrir að barn vaxi upp úr bolla.
En hvernig datt Ilönu þessi vitleysa eiginlega í hug? “Æ, ég er alltaf að reyna að koma niður á nýjar hugmyndir fyrir barnamyndatökur. Þegar litli frændi minn fæddist, heimsótti ég foreldra hans og lagði jakkaföt pabba hans á gólfið. Smellti af mynd þegar ég hafði hagrætt barninu og mér fannst hugmyndin svo rosalega fyndin að ég fór heim til vina og kunningja, fékk lánuð flest öll ungabörn sem ég þekkti og smellti af fleiri myndum. Og þannig æxlaðist þetta eiginlega bara.”
Ilana deildi myndunum á Instagram, bjó til nýtt auðkennismerki og í framhaldinu var trendið #babysuiting komið í loftið, af stað út í heiminn og flæðir nú yfir bakka sína. Ungabörn í alltof stórum jakkafötum feðra sinna eru “algerlega málið í dag” á Instagram.
Þú getur tekið þátt, að því tilskyldu að alltof stór jakkaföt, ungabarn og snjallsími sé í nándinni, en Ilana er með tæknina á hreinu: “Áður en þú kemur sjálfu barninu fyrir, þarftu að hagræða jakkafötunum vel á gólfinu. Hnýta bindið og hneppa lausar tölur. Barnið á að sjálfsögðu að hafa gaman að leiknum líka og þægindi eru algert skilyrði. En því stærri sem jakkafötin eru, því fyndnari verður myndin!”
Ilana hefur hlotið talsverða athygli fyrir vikið, en Instagram og Buzzfeed hafa meðal annars fjallað um uppátæki hennar
.
#babysuiting
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.