Mikill baráttuhugur í kennurum – Kennarar vilja fá sambærileg laun og fólk með sömu menntun

Baráttufundur grunnskólakennara í Reykjavík.

Næstkomandi fimmtudag, 26. september kl. 20 standa grunnskólakennarar í Reykjavík fyrir baráttufundi í Iðnó. Kennarar hafa verið að skiptast á skoðunum á Facebook í allt sumar og þar kviknaði hugmyndin að því að halda stóran baráttufund í haust. Það er því eingöngu grasrótin, fólkið sem vinnur á gólfinu, sem stendur að fundinum. Einn af skipuleggjendum fundarins er Geirlaug Ottósdóttir en hún kennir í Háaleitisskóla.

Ég spurði hana hvers vegna kennarar væru að blása í lúðra núna?

Grunnskólakennarar eru orðnir mjög langþreyttir á ástandinu í skólunum. Skólarnir hafa, eins og aðrar stofnanir í þjóðfélaginu tekið á sig mikinn niðurskurð sem kemur m.a. fram í stærri bekkjum, minni aðstoð inni í bekkjum og meira álagi á allt starfsfólk. Þá segja kannski sumir að við séum ekki eina stéttin sem sé undir álagi og það er alveg rétt. Hins vegar eru launin okkar orðin svo lág að við getum ekki lengur við unað. Dagvinnulaun kennara eru um 20% undir dagvinnulaunum hjá félagsmönnum BHM og 30% undir heildarlaunum hjá sama félagi. Margt hefur þar að auki breyst í okkar starfsumhverfi sem hefur aukið álagið en við höfum ekki fundið fyrir að launaumslagið hafi bólgnað þrátt fyrir það.

Hvaða breytingar ertu þá aðallega að tala um?

Ég get nefnt t.d. blöndun í bekki sem fékkst með skóla án aðgreiningar, alls kyns skráningar og samskipti við sérfræðinga s.s. sálfræðinga ofl., sameiningarferli sem nokkrir skólar í Reykjavík hafa gengið í gegnum undanfarið, innleiðing nýrrar Aðalnámskrár, teymisvinna og fundarsetur, námskeið og svona mætti lengi telja. Allt er þetta góðra gjalda vert og mikilvægt en okkur finnst að við mættum fara að sjá að launin færu upp á við. Við þetta er svo að bæta að nú er búið að lengja kennaranámið í 5 ár og við erum nú þegar farin að sjá að lítil endurnýjun verður í stéttinni. Við erum að verða „gömul“ stétt ef svo má að orði komast.

Hver eru launin þín í dag?

Já það er ekkert leyndarmál! Ég er 49 ára gömul og er búin að kenna í tæplega 20 ár. Ég er með BA-próf, BEd-próf og leyfi til að kenna í framhaldsskóla. Heildarlaunin mín á mánuði eru 390.000 og ég fæ útborgað 265.000 kr. Ég á fjögur börn og mér finnst súrt í broti að hugsa til þess að ef ég væri ein að sjá fyrir mér og börnunum þá yrði ég að fá mér aukavinnu til að geta framfleytt okkur. Það finnst mér ekki boðlegt. Ég veit um marga kennara sem eru í tveimur ef ekki fleiri störfum fyrir utan kennslu til að ná endum saman.

En nú tala margir um að þið séuð svo heppin að fá svo langt sumarfrí, eru lágu launin kannski þess virði?

Sumarfríið okkar er frá miðjum júní fram í miðjan ágúst, eða tveir mánuðir. Við vinnum tæplega 43 tíma vinnuviku (og margir allt að 50 tíma) og skilum 1800 vinnustundum á ári eins og aðrir. Við erum því búin að vinna þennan tíma sem út af stendur á sumrin af okkur. Þ.e.a.s. við eigum tíma inni því við fáum enga yfirvinnu greidda þó við séum með lengri vinnuviku. Margir kennarar nýta sumarfríið sitt í aukavinnu, t.d. sem leiðsögumenn til að drýgja tekjurnar en hafa þá ekkert sumarfrí í staðinn. Þetta ætti auðvitað enginn að þurfa að gera sem vinnur fulla vinnu.

Ætla grunnskólakennarar að fara í verkfall?

Þessu get ég ekki svarað. Ég held að verkfall sé alltaf síðasti kosturinn þegar búið er að reyna allar aðrar leiðir. Við viljum fyrst og fremst fá leiðréttingu á laununum okkar. En þetta er ein af spurningunum sem liggur fyrir fundinum í Iðnó, þ.e. hvað vilja kennarar gera? Við vonumst til að fundurinn verði málefnalegur og faglegur og þar getum við komið okkur saman um ályktun sem samninganefndin geti svo haft að leiðarljósi í komandi kjarasamningaviðræðum. Allir grunnskólakennarar sem ég þekki þykir vænt um starfið sitt og vilja helst ekki vinna nokkurt annað starf. Við erum fagleg og full ábyrgðar gagnvart okkar skjólstæðingum. Við getum hins vegar ekki leyft okkur að leyfa hugsjóninni einni að ráða för því kennslan er líka okkar lifibrauð. Ég vona svo sannarlega að samninganefndirnar okkar beri gæfu til að komast að niðurstöðu sem allir geta sætt sig við því annars hef ég hreinlega áhyggjur af því að við förum að missa gott fólk úr stéttinni. Við hljótum öll að vera sammála um að það viljum við alls ekki því að börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum og þau eru skólaskyld í 10 ár ævi sinnar.

Takk fyrir Geirlaug og gangi ykkur vel!

Við hjá Hun.is hvetjum alla grunnskólakennara í Reykjavík til að mæta á fimmtudagskvöldið kl. 20.00 í Iðnó og sýna samstöðu.

SHARE