Barnaheill: Stöðvum barnaklám á Netinu

Stöðvum barnaklám á Netinu nefnist nýtt verkefni Barnaheilla, Save the Children á Íslandi, sem hleypt hefur verið af stokkunum. Á nýjum vef samtakanna, www.barnaheill.is, hefur verið settur upp tilkynningahnappur um barnklám á Netinu. Þeir sem nota Netið eru hvattir til að láta tafarlaust vita ef þeir rekast á barnklám á Netinu. Ábendingar frá almenningi eru skoðaðar hjá Barnaheillum og upplýsingum um ólöglegt efni komið áfram til lögreglu. Unnt er að koma með slíkar ábendingar í skjóli nafnleyndar, ef þess er óskað. Verkefni Barnaheilla er strax farið að skila árangri því þegar hefur borist fjöldi ábendinga um barnaklám á Netinu frá því að verkefnið hófst formlega þann 30. október sl.

Gróft barnaklám sem ekki voru dæmi um áður

Enginn veit fyrir víst hve mikið af barnaklámi er að finna á Netinu. Þó er ljóst að umfangið er töluvert. Barnaníðingar nota Netið til að eiga samskipti hver við annan og til að komast í samband við börn. Aðgengi manna að Netinu verður auðveldara með degi hverjum og með nýrri, stafrænni tækni er orðið mjög auðvelt fyrir hvern sem er að setja myndir inn á Netið. Vandamálið er ákaflega erfitt viðureignar og á síðustu tveimur árum hefur birst á Netinu afar gróft barnaklám sem ekki voru dæmi um áður.

Til þess að sporna við þessum vanda hafa samtökin Barnaheill hrint af stað verkefninu Stöðvum barnaklám á Netinu. Á www.barnaheill.is er auk tilkynningahnapps um barnaklám á Netinu að finna fræðsluefni sem ætlað er að opna augu fólks fyrir þeirri staðreynd að barnaklámi er dreift á Netinu, ásamt upplýsingum um það hvernig foreldrar og börn geta varist slíku áreiti.

Aðferð sem skilað hefur mjög góðum árangri

Markmiðið með verkefninu Stöðvum barnaklám á Netinu er að berjast gegn barnklámi á Netinu með öllum tiltækum ráðum. Jafnframt er tilgangur verkefnisins sá að vekja almenning, yfirvöld og forráðamenn netþjónustufyrirtækja til vitundar um umfang vandans og hvetja alla sem rekast á barnaklám á Netinu til þess að láta vita. Barnaheill eiga aðild að INHOPE Association, (www.inhope.org) samtökum neyðarlína “hotlines” í Evrópu, Ástralíu og Bandaríkjunum, sem hafa það að markmiði að berjast gegn barnaklámi á Netinu. Verkefni Barnaheilla er styrkt af Evrópusambandinu, undir verkefnisheitinu Safer Internet Action Plan (www.saferinternet.org).

Sú aðferð að koma upp tilkynningahnappi um barnaklám á Netinu hefur skilað mjög góðum árangri víða um heim og vonast Barnaheill til að sú verði einnig raunin hér á landi. Sem dæmi má nefna að systursamtök Barnaheilla í Noregi hafa komið upp tilkynningahnappi á vefsíðu sinni og bárust alls 7.246 tilkynningar um barnaklám á Netnu á síðasta ári. Árið 1999 voru tilkynningar 5.979 talsins og var 1.235 heimasíðum lokað af netþjónustufyrirtækjum í kjölfarið.

Svipaða sögu er að segja af samtökunum Internet Watch Foundation á Bretlandi (www.iwf.org.uk).

 

doktor.is logo

SHARE