„Barnavernd Kópavogs rændi mig æskunni“ – Upplifði líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi

Inni á fréttasíðunni kfrettir.is birtist þessi frábæri pistill frá honum Davíð Bergmann Davíðssyni. Hann er ráðgjafi á Stuðlum en var sjálfur einu sinni hinum megin við borðið. 

 

Ég er ekki viss um að fólk átti sig almennt á því hver raunveruleikinn er hjá okkur sem vinnum með börnum sem

koma til meðferðar af ýmsum ástæðum. Þá er ég ekki að tala eingöngu um börn sem eiga við vímaefnavanda að stríða því oftast er þetta fjölþættur vandi.

Screen shot 2013-10-01 at 10.18.15
Davíð Bergmann Davíðsson, ráðgjafi á Stuðlum

 

Það hefur komið fram í könnunum í gegnum tíðina hjá heilbrigðisstarfsfólki, að það verður fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi. Við sem störfum við meðferðarúrræði verðum líka fyrir því.

Staðreyndin er sú að við sem vinnum við þetta höfum ekki haft neinn talsmann. Þar að leiðandi höfum við verið í vondri aðstöðu til að tjá okkur um ofbeldi sem við verðum fyrir vegna þagnarskyldu okkar.

Við eigum í miklum erfiðleikum að verja okkur ef við erum ásökuð um ofbeldi gagnvart börnunum. Mjög oft ratar sú um

ræða í fjölmiðla og verður óvægin og ósanngjörn og er ekki alltaf sannleikanum samkvæm.
Þar sem ég hef sjálfur verið báðum megin við borðið, annars vegar sem barn, og hins vegar sem meðferðaraðili, tel ég mig geta tjáð mig um þennan veruleika.Saga meðferðarstofnana hefur ekki verið okkur meðferðarfulltrúum hliðholl eins og best má sjá af Breiðavíkurmálinu.

Þegar ég var barn á miðstígi í grunnskóla var ég rifinn upp með rótum, bæði frá minni fjölskyldu og vinum, af skóla og barnaverndaryfirvöldum Kópavogs. Fyrst til að byrja með var ég sendur í sérkennsluúrræði sem var á Álfhólsvegi. Ég stoppaði stutt við þar enda var þetta ekki staður til að styrkja sjálfmyndina mína. Þarna var ég settur í bekk meðal annars með þremur þroskaheftum einstaklingum.

Ég man hvað það var mikil niðurlæging að fara í þetta skólaúrræði og hvernig ég reyndi að lauma mér í gegnum garða svo engin myndi sjá mig fara þangað inn – fyrir utan öll skiptin þegar ég gerði mér upp veikindi.

Ég reyni að strjúka og meira að segja stökk ég út um glugga á annarri hæð og meiddist á fæti í kjölfarið. Ég var ekki þroskaheftur, ég var með sérstaka námerfiðleika og hafði verið lagður í alvarlegt einelti af kennara af þeim sökum. Ég passaði ekki í staðalímynd kennarans.

Þegar þetta úrræði á Álfhólsvegi gekk ekki upp var inngrip sem hafði þær afleiðingar að æsku minni var rænt. Ég var sendur í margar vistanir.

Ég tek það skýrt fram hér að ekki var um neina óreglu að ræða á mínu heimili. Hræðslan og vanmáttur foreldra minna á þessu tíma við skóla og félagsmálayfirvöld voru öllu yfirsterkari enda voru barnayfirvöld mikil grýla á þessum tíma í þeirra huga.

Í sumum af þessum vistunum upplifði ég ofbeldi. Bæði líkamlegt og kynferðislegt.

Í stuttu máli brást eftirlitsskylda barnaverndar Kópavogs algjörlega í mínu tilfelli.

Ég man aldrei eftir að hafa hitt starfsmann á vegum barnaverndar á meðan ég var vistaður á þessum heimilum. Það segir skýrt í barnaverndarlögum að félagsmálastofnun Kópavogs hafi þá skyldu að fylgjast með velferð barna og taka út þau heimili sem ég var vistaður á.

Auðvitað hafði þetta djúpstæð áhrif á líf mitt og er alltaf jafn sárt í minningunni og mun aldrei gleymast en ég verð að lifa með þessu.

Vegna þessarar reynslu minnar valdi ég, árið 1995, að starfa við þennan vettvang sem ég starfa við enn þann dag í dag.

Ég er búinn að starfa svo lengi í þessum geira að ég man að þegar ég hóf störf þá var sjálfræðisaldurinn 16 ár og var síðan færður upp í 18 ár 1998.

Ég gæti skrifað bók um það sem ég hef upplifað á þessum árum sem ráðgjafi og hvernig staðan var og er í málefnum olnbogabarna á Íslandi í dag.

Hins vegar er ég ekki sterkur penni vegna minna sértæku námsörðugleika og hef þess vegna ekki komið því í verk.

Í dag myndu svona vinnubrögð aldrei líðast. Það myndi aldrei koma til greina að rífa barn upp með rótum vegna lesblindu, sem betur fer.

En núna, þegar ég er kominn í hitt hlutverkið, að vera fullorðni aðilinn sem meðferðaraðili, finn ég líka til ákveðins vanmáttar sem fagmaður.

Ég er nokkuð viss um að fólk geri sér ekki grein fyrir hvernig okkar starfsumhverfi er. Við höfum ekki haft tækifæri til að tjá okkur um það við fjölmiðla í gegnum tíðina vegna þegnarskyldu okkar.

Ég á til dæmis ekki von á að fólk trúi því, ef ég tek mig sem dæmi, að það hefur verið ráðist á mig með hníf, komið heim til mín með hafnaboltakylfu (reyndar var ég ekki heima þá sem betur fer) og hringt í mig á laugardagsmorgni og haft í líflátshótunum, bæði við mig og mína fjölskyldu.

Ég hef staðið fyrir framan ungling sem er hausnum hærri en ég og 30 kílóum þyngri með örbylgjuofn fyrir ofan höfuðið á sér og hótað að kasta honum í andlitið á mér. Kalla þurfti til lögreglu og þurfti eina þrjá lögreglumenn til að yfirbuga þennan óstabíla unga mann. Og ég hef verið tekinn haustaki að aftanverðu og keyrður með höfuðið í vegg.

Þetta er ekki einsdæmi.

Ég veit um atvik þar sem sjóðandi heitu vatni var kastað í andlit á starfsmanni á meðferðarheimili. Einnig hafa starfsmenn verið ásakaðir um kynferðislega misnotkun og áreitni sem enginn fótur var fyrir, heldur hreinn og klár uppspuni. Oft getur það bara snúist um að barninu er illa við starfsmann vegna þess að hann var að setja því mörk.

Ég hef sjálfur verið kallaður til yfirheyrslu þar sem ég hef verið kærður fyrir ofbeldi gegn ungmenni sem var hreinn og klár þvættingur. Í því tilfelli var ég mjög þakklátur fyrir myndavélakerfið sem var á staðnum sem gat sannað mitt mál og dagbókarskýrslu lögreglu. Ég var í símasambandi við lögreglu rétt áður en til þeirra átaka kom. Í því tilfelli réðst drengur á mig með hníf. Þá þurfti ég að verja líf mitt.

Ég tek það fram að forstjóri Barnaverndarstofu hefur beðið mig afsökunar að hafa ekki komið að því máli. Það var vegna formgalla á boðleiðum innan kerfisins. Málið fór þannig að saksóknari sá enga ástæðu til að kæra mig og var málið látið niður falla.

Þetta er veruleiki sem meðferðarráðgjafar búa við. Það eru mjög stífar vinnureglur í dag og mikil skriffinska sem er fyrst og fremst til að verja okkur í starfi. Þar sem þetta hefur ekki áður komið fram í dagsljósið, mér vitanlega, finnst mér rétt að opna augu almennings fyrir þessu nú.

Þegar fólk spyr mig við hvað ég starfa þá fæ ég mjög oft að heyra að þetta geti ekki verið skemmtilegt. Þetta hljóti að vera mjög erfitt. Jú, stundum er það svo. Stundum er þetta mjög hættulegt. Sem betur fer er þetta starf oftast mjög gefandi. Annars hefði ég ekki starfað við þetta í öll þessi ár.

SHARE