Bein er lifandi vefur, sterkt sem stál en sveigjanlegra. Í beini á sér stað nýmyndun, viðgerð og niðurbrot. Forsendur eðlilegrar beinmyndunar alla ævi er nægilegt magn af kalki, D-vítamíni, eðlileg hormónastarfssemi og síðast en ekki síst dagleg hreyfing og líkamsáreynsla. Hraðasta beinmyndunin og sú mesta er á árunum 11 til 14 ára. Á þessum árum skiptir því kalkneysla, D-vítamín og líkamsáreynsla sköpum fyrir beinhag seinni ára. Beinmassi vex fram á miðjan þriðja áratuginn. Heilbrigð bein eru sterk en geta brotnað við mikið álag. Brotni bein við lítið álag er líklega um beinþynningu að ræða. Aldurstengt beintap verður frá miðjum þriðja áratug ævinnar þar sem niðurbrot er meira en nýmyndun beins á hverjum tíma. Við tíðahvörf kvenna tapast bein hratt og mikið næstu tíu árin. Ýmsar sjúkdómstengdar orsakir eru fyrir beintapi, til dæmis margvíslegir innkirtlasjúkdómar. Þegar beinþynnig er orðin mikil má búast við fjölda margvíslegra brota sem skerða færni og lífsgæði. Þegar grunur er um beinþynningu er beinþéttnimæling bæði þægileg og fljótvirk aðferð til þess að segja til um beinhag. Ef beinþynning er staðfest má beita lækningu við undirliggjandi sjúkdóm og auka beinmassa með lyfjum og líkamsáreyenslu.
Beinbrot
Framhandleggsbrotum, samfallsbrotum í hrygg og mjaðmabrotum fjölgar stöðugt frá sextíu ára aldri og eru flest hjá háöldruðum. Önnur hver öldruð kona hlýtur beinbrot á ævinni. Samfall í baki verða án minnstu viðvörunnar en mjaðmabrot oftast i kjölfarið á byltu. Báðar þessar tegundir af beinbrotum skerða verulega lífsgæði og geta heft mjög sjálfsbjargargetu. Brot valda ótta og draga úr sjálfstrausti vegna þess vanmáttar sem fólk upplifir. Hætt er við að það leiði til takmörkunar á hreyfingum, sem aftur dregur úr líkamsþrótti. Vítahringur myndast.
Sjá einnig: Gætir þú átt í hættu að fá beinþynningu?
Meðferð
Hámarksbeinmassi næst á þrítugsaldri og ákvarðast af samspili erfða, hreyfingar og næringarinntöku, meðal annars, kalks og D-vítamíns. Bein tapast alla tíð upp frá því, hraðast og mest hjá konum á breytingarskeiði, jafnt og þétt og með vaxandi þunga fram i háa elli. Samfallsbrot i hrygg geta orðið án áverka, en lang flest mjaðma- og framhandleggsbrot verða í kjölfarið á byltu. Viðhald beinmassa er mikilvægt. Aldraðir þurfa að taka allt að 1200 – 1500 mg af kalki á dag og 600 til 800 alþjóðlegar einingar af D-vítamíni. Auk þess kemur hormónmeðferð eða sértæk beinstyrkjandi meðferð með lyfjum til álita í ákveðnum tilvikum.
Byltur
En til þess að varna beinbrotum er ekki síður mikilvægt að koma í veg fyrir byltur. Á það einkum við framhandleggs- og mjaðmabrot. Langalgengasta orsök byltu hjá öldruðum einstaklingi er skert jafnvægi, annað hvort vegna skerðingar í jafnvægisnemum eða varnarviðbrögðum við jafnvægistruflun. Ýmsir eiginleikar mannslíkamanns dvína með hækkandi aldri sem sést vel á því að aldraðir maraþonhlauparar hlaupa hægar en þeir sem yngri eru. Hins vegar hættir mjög mörgum til að skella skuldinni á ellina, þegar í raun er kyrrsetu og hreyfingarleysi um að kenna. Með kyrrsetu verður gríðarlegt óþarfa tap á bein- og vöðvastyrk og aukið jafnvægisleysi vegna hreyfingarleysis. Þeir sem hafa í ofanálag langvinna sjúkdóma verða einkar ilIa úti.
Gildi líkamshreyfingar og mjaðmapúða
Öldrunarbreytingar líkjast mjög kyrrsetubreytingum í flestum atriðum. Það er ein veigamikil undantekning. Líkamsgetu vegna kyrrsetu má endurheimta á áhrifaríkan hátt með líkamshreyfingu og sértækri þjálfun, allt eftir því hvort verið er að sækjast eftir auknu þreki, styrk eða jafnvægi, sem er einnig aðgengilegasta leiðin til að draga úr byltum og þar með brotum. Auk skertrar líkamsstjöðustjórnar eru margir þættir í lífi einstaklingsins sem setja hann i fallhættu, til dæmis lyf, ýmsir sjúkdómar, vitræn skerðing og slysagildrur í umhverfinu. Ef hugað er að öllum þessum þáttum má fækka byltum um þriðjung. Til að auka enn á öryggi þeirra sem verst eru settir, til dæmis hjá þeim sem eru á elIi- og hjúkrunarheimilum, má nýta sér sérstakar buxur með stuðpúðum eða skeljum yfir mjöðmum.
Sjá einnig: Matur fyrir hraust bein
Ábyrgð á eigin heilsu
Skilningur á orsökum beinbrota og því hvemig forðast má þau hefur vaxið hröðum skrefum á síðasta áratug. Brot eru ekki óumflýjanlegur fylgikvilli ellinnar heldur eitt af því marga, sem má forðast með því að einstaklingarnir axli ábyrgð á eigin heilsu með því að huga að næringarinntöku og hreyfingu og með því að leita til heilbrigðisstarfsmanna verði þróttleysis eða jafnvægisleysis vart. Unga fólkið getur lagt grunn að góðri framtíð með því að stuðla að hámarksbeinmassa í æsku og temja sér reglulega líkamshreyfingu og holla lífshætti.
Fleiri heilsutengdar greinar á
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.