Berjamó – Grænar uppskriftir án aukaefna frá Café Sigrún

blueberries blaber ber berries

Nú fer að halla að hausti og tími uppskerunnar genginn í garð. Hringrásin heldur áfram þrátt fyrir derring í náttúruöflunum og bráðum falla laufin og frysta tekur á ný.

Víða hafa borist fréttir af góðum horfum í berjamó þessvegna datt mér í hug að deila með ykkur nokkrum bráðhollum bláberjauppskriftum. Eins og svo oft áður leitaði ég í viskubrunn Sigrúnar hjá cafesigrun.com og fékk með góðfúslegu leyfi hennar að birta hér nokkrar af hennar marglofuðu uppskriftum.

Varla þarf að tíunda næringargildi bláberja sem flokkuð eru sem súperfæða enda stúfull af vítamínum og andoxunarefnum en þau síðarnefndu eru talin styrkja ónæmiskerfið, minnka hættu á hjarta- og æðasjúkdómum og vinna á móti hrörnun líkamans. Heilsuspekúlantar tala um að bláber styrki líka sjónina og séu góð gegn bjúgmyndun, blöðrubólgu og tíðaverkjum svo nokkuð sé nefnt.


Krydduð bláberjasulta

Gerir um 200 ml af sultu, má frysta.

Innihald
•    200 g bláber
•    1 tsk sítrónusafi
•    0,25 tsk malaður negull (enska: cloves)
•    0,5 tsk kanill
•    4 msk agavesíróp

Aðferð
1.    Maukið bláberin smástund í matvinnsluvél (nokkrar sekúndur) eða kremjið þau vel með skeið.
2.    Sjóðið berin í litlum potti ásamt sítrónusafanum, kryddinu og agavesírópinu.
3.    Látið bullsjóða í nokkrar mínútur og hrærið vel.
4.    Hellið sultunni í skál eða í krukku.
5.    Geymist í viku í ísskáp en aðeins lengur ef krukkan hefur verið sótthreinsuð.


Heit bláberja- og vanillusósa

Gerir um 250 ml af sósu

Innihald
•    200 g bláber, fersk eða frosin
•    5 msk agavesíróp
•    1 vanillustöng
•    1 tsk sítrónusafi
•    50 ml eplasafi eða annar hreinn ávaxtasafi

Aðferð
1.    Setjið bláber, agavesíróp, sítrónusafa og eplasafa í lítinn pott.
2.    Látið suðuna koma upp og leyfið þessu öllu að malla í nokkrar mínútur.
3.    Skerið vanillustöngina eftir endilöngu og skafið vanillufræin úr stönginni með oddinum á litlum hnífi. Leyfið stönglinum að sjóða með bláberjunum.
4.    Merjið berin aðeins með litlum gaffli og hrærið vel.
5.    Látið sósuna malla í 10 mínútur.
6.    Fjarlægið vanillustöngina.
7.    Berið sósuna fram heita með t.d. heitum bökum og kökum, ís o.fl.

Þessa sósu er  hægt er að nota í alls kyns drykki, hún geymist  meira en viku í ísskáp og hana má frysta og hita upp síðar.


Bláberjate

Fyrir 2

Innihald
•    2 msk bláber, fersk eða frosin (einnig má nota bláberjasultu úr heilsubúð (án viðbætts sykurs))
•    2 tsk agavesíróp (eða acacia hunang)
•    2 tsk sítrónusafi
•    600 ml vatn

Aðferð
1.    Setjið bláber (eða bláberjasultu), agavesíróp og sítrónusafa í lítinn pott.
2.    Látið suðuna koma upp án þess að bullsjóði.
3.    Ef notuð eru fersk eða frosin bláber er gott að kremja þau með matskeið í pottinum. Ef notuð er sulta er hún látin leysast upp í vökvanum.
4.    Bætið vatninu saman við og hitið að suðu.
5.    Hellið vökvanum í gegnum fíngatað sigti.
6.    Hellið í glös, leyfið teinu að kólna í 2-3 mínútur og berið fram. Drykkurinn er líka afbragð kaldur þá með ísmolum.
Verði ykkur að góðu.

 

SHARE