Besti hafragrautur í heimi

Ég er óttalegur hafragrautspervert. Það er alveg sérstakt áhugamál hjá mér að gera tilraunir með grautinn minn – eins sorglega og það kann að hljóma. Ég bara elska hafragraut. Elska hann, elska og elska. Gæti borðað hann í öll mál. Stundum get ég varla sofnað á kvöldin af því ég hlakka svo til að borða hafragrautinn minn morguninn eftir.

Allt í lagi, stundum rúlla ég mér einfaldlega fram úr rúminu og bý til hafragraut. Að kvöldi til. Af því ég get bara ekki beðið. En það er önnur saga.

Sjá einnig: Ofnbakaður hafragrautur með ferskum jarðaberjum – uppskrift

IMG_6107

Besti hafragrautur í heimi

Byrjum á því að ná okkur í skál – sem óhætt er að setja inn í örbylgjuofn.

Í skálina fer:

1 dl haframjöl

1 lítil lúka af hörfræjum

1 dl vatn

1 dl mjólk

1/2 banani

1 teskeið kókosolía

kúfuð skeið af hnetusmjöri

IMG_6080

Haframjölið og hörfræin fara fyrst í skálina.

IMG_6092

Þar á eftir setjið þið vatnið og mjólkina. Bananinn er svo skorinn út í. Þetta fer síðan inn í örbylgjuofn í eina mínútu og þrjátíu sekúndur. Já, akkúrat það. Þá er skálin tekin út og þið stappið bananann saman við blönduna. Inn í örbylgjuofninn með þetta aftur í svona góðar þrjátíu sekúndur.

Hrærið vel í grautnum þegar hann kemur út úr örbylgjuofninum í seinna skiptið. Hann ætti að vera nokkuð þykkur. Að því búnu náið þið í kókosolíu, smellið teskeið út í og hrærið meðan hún bráðnar saman við.

Á þessum tímapunkti verður lyktin unaðsleg. Mmm.

IMG_6099

Síðast en ekki síst, punkturinn yfir i-ið og rúsínan í pylsuendanum. Hnetusmjör! Við viljum verulega væna skeið af því. Stingið skeiðinni með hnetusmjörinu ofan í grautinn. Þar hitnar hnetusmjörið og mýkist. Hafragrauturinn er svo borðaður með hnetusmjörsskeiðinni. Ef þið skiljið hvað ég á við. Þið notið skeiðina með hnetusmjörinu í til þess að borða grautinn. Þá fáið þið dálítið hnetusmjör með hverri skeið sem fer upp í munninn.

Uppáhalds maturinn minn. Að eilífu. Amen.

Sjá einnig: 9 leiðir til þess að hressa upp á hversdagslegan hafragraut

SHARE