Bilaðir dagar í gangi

Sölvi Tryggvason er að leggja lokahönd á myndina Jökullinn logar, sem fjallar um leið íslenska landsliðsins á EM í knattspyrnu.

„Það verður örugglega æðislegt þegar maður fer á forsýninguna á sinni eigin mynd, þó þetta séu dálítið bilaðir dagar sem eru í gangi akkúrat núna,“ segir Sölvi Tryggvason, höfundur og framleiðandi myndarinnar Jökullinn logar, sem fjallar um leið íslenska landsliðsins í knattspyrnu á EM í Frakklandi. Sölvi er nú að leggja lokahönd á myndina, sem frumsýnd verður 3. júní næstkomandi, og er að dag og nótt. „Á sama tíma og við erum að kynna myndina og skipuleggja það að koma henni í bíó þá erum við að leggja lokahönd á sjálfa myndina,“ útskýrir hann.

Um er að ræða fyrstu mynd Sölva og þó hann hafi töluverða reynslu af þáttagerð þá er heilmargt sem hefur komið honum á óvart. „Það eru svo mörg smáatriði við gerð bíómyndar sem eru öðruvísi en þegar maður er að gera sjónvarpsþætti. Margt mun flóknara. Þegar fram í sótti fór ég líka í hlutverk framleiðandans, þannig þetta hefur verið góður skóli fyrir mig.“ Aðspurður hvort hann hafi gert sér grein fyrir því þegar hann lagði af stað í þetta verkefni árið 2014, hve mikil vinna biði hans, er svarið einfalt: „Nei.“

Sölvi er nokkuð viss um að þeim hafi tekist að gera góða mynd og viðtökurnar við stiklu úr henni hafa verið mjög góðar. „Það er hins vegar ótrúlega erfitt að spá fyrir um hvernig gengur og ég hef í gegnum tíðina lært að stilla væntingum í hóf.“
En hvað tekur við hjá honum þegar allri vinnu við myndina er lokið? „Ég er á þeim stað núna að ég ætla að klára þetta verkefni þannig að ég geti sagt að ég hafi lagt allt í þetta. Og ég hef ekki hugmynd um hvað ég ætla að gera svo,“ segir Sölvi sem gerir þó ráð fyrir að smá hvíld verði kærkomin.

SHARE