Meistaranemar í viðskiptafræðideild við Háskóla Íslands hafa sett af stað fjáröflunarátakið „Öll í einn hring“ í tengslum viðnámskeiðið Samvinna og árangur undir handleiðslu Elmars H. Hallgríms lektors. Tilgangur námskeiðsins er að nemendur afli fjár fyrir Barnaspítala Hringsins en öllu söfnunarfé verður varið til tækjakaupa fyrir barnaspítalann.
Starfsemi háð styrkjum og velvilja
Barnaspítali Hringsins er ein af mikilvægustu stofnunum okkar Íslendinga og starfsemi hans snertir alla landsmenn að einhverju leyti. Spítalinn sinnir göfugu og mikilvægu starfi í þágu þeirra barna þurfa að dvelja þar vegna veikinda sinna. Starfsemi Barnaspítala Hringsins er að miklu leyti háð styrkjum sem og velvilja almennings og íslenskra fyrirtækja um fjármögnun til kaupa á tækjum og öðrum aðbúnaði.
Fjölmargir viðburðir verða haldnir í tengslum við átakið en þannig vilja nemendur vekja athygli á málefninu og virkja þar með unga sem aldna til að styðja við Barnaspítala Hringsins með þeim hætti sem hverjum er unnt. Meðal annars hafa allir grunnskólar landsins fengið boð um að taka þátt í átakinu hver með sínum hætti.
Bíó og rapptónleikar
Næstkomandi laugardag þann 1. febrúar klukkan 13:30 verður sérstök styrktarsýning í Sambíóunum í Egilshöll á barnamyndina Jónsi og Riddarareglan þar sem allur ágóði rennur til tækjakaupa fyrir Barnaspítala Hringsins. Hér er kjörið tækifæri fyrir foreldra til að gera sér glaðan dag með börnum og styrkja átakið í leiðinni. Miða má nálgast hjá Sambíóunum Egilshöll eða vef Sambíóanna. Athugið að aðeins er um þessa einu sýningu að ræða. Nánari upplýsingar um atburðinn má nálgast hér.
Sama kvöld, laugardagskvöldið 1. febrúar verðar góðgerðar rapptónleikar haldnir á Gamla Gauknum þar sem listamennirnir Emmsjé Gauti, Úlfur Úlfur, Larry BRD og Kött Grá Pjé skemmta gestum. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og kostar aðeins 2.000 þúsund krónur inn en hægt er að nálgast miða á midi.is eða við innganginn. Nánari upplýsingar um atburðinn má sjá hér.
Perluarmbönd búin til af börnum
Perluarmbönd sem verða búin til af börnum í 1. bekk í nokkrum grunnskólum á höfuðborgasvæðinu verða til sölu hjá Hrím hönnunarhúsi til styrktar átakinu frá 31.janúar. Armböndin verða einnig til sölu í ýmsum verslunum og stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu á meðan byrgðir endast. Armböndin eru úr perlum og stöfum sem móta þau orð sem börnunum dettur í hug í tengslum við málefnið. Hver einasta perla á armbandinu minnir okkur á að hvert barn á skilið góða barnæsku.
Þeim sem vilja styrkja átakið er bent á reikningsnúmer söfnunarinnar sem er 0137-05-060777 og kennitöluna 630114-2410. Einnig viljum við benda fólki á söfnunarsímann 904-1000 þar sem 1000 kr gjaldfærast sjálfkrafa af símreikningi við innhringingu.
https://www.youtube.com/watch?v=6956rU-JIL4