Nú erum við á höfuðborgarsvæðinu aldeilis búin að njóta sólar undanfarið og fylla á D vítamínið og hækka gleðistatusinn.
Sumir njóta þess að fara í sund, aðrir njóta náttúrunnar og enn aðrir hjóla, líf út um allt sem er svo dásamlegt.
Það sem gleður mitt bjarta hjarta eru börnin sem eru úti að leika sér, hoppa á trampólíni, sparka bolta eða í einhverjum öðrum leikjum.
Það vekur upp gamlar minningar frá því ég var sjálf stelpa og naut þess að vera úti yfir sumartíman, hafði ekki neina tilfinningu fyrir klukkunni af því það var alltaf bjart og skilaði mér því oft heim á ókristilegum tíma og fannst ömurlega fúlt að vera sagt að fara að sofa þegar enn var bjart!
Sjá einnig: Hreyfing í sumarfríinu
Þessar íslensku björtu nætur sem eru bæði í senn dásamlegar og erfiðar. Útlendingum finnst þær magnaðar og við Íslendingar margir hverjir fögnum sumrinu og þar með björtum nóttum.
Hver kannast ekki við að barn sé ósátt við að nú sé komin háttatími og það er enn bjart úti?
Eflaust eru það margir foreldrar sem takast á við þetta núna.
Svo er það þetta með okkur fullorðna fólkið. Ég hef alltaf átt ótrúlega erfitt með að sofa almennilega á sumrin, bjartar nætur hafa þessi áhrif á mig. Þó ég hafi myrkvunargluggatjöld og augngrímu og allt þá er svefnstöðin í heilanum ekki með á nótunum.
Einhverjir aðrir sem kannast við það?
Viti þið hvað mér finnst best við þessar björtu nætur það er að vera úti í náttúrunni ein með fuglasöng, það er æðislegt að fara í göngu að nóttu til þar sem eingöngu náttúran og fuglarnir eru með manni.
Það er líka rosalega magnað að veiða að nóttu til.
Kæru lesendur njótið sumarsins.
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!