Á heimasíðunni Allskonar er að finna mjög margar góðar uppskriftir og við rákumst á þessa þarna inni.
Bláberjachutney eða kryddmauk er alger snilld, það passar fullkomlega með villibráð og kjöti og með ostum. Það er dásamlegt út í sósur og frábært að blanda því við sýrðan rjóma eða gríska jógúrt til að fá ferska kalda sósu með kjöti eða villbráð. Svo tekur enga stund að búa það til og bragðið verður bara betra með tímanum. Þessi uppskrift er í 3-4 litlar krukkur en mjög einfalt er að stækka hana með því að hreinlega tvöfalda allt í uppskriftinni.
Bláberjachutney
1 tsk ólífuolía
1 skallottulaukur, fínsaxaður
450 gr bláber
4 msk púðursykur
4 msk hunang
5 msk rauðvínsedik
1/4 tsk kanill, malaður
1/4 tsk engifer, malaður
1/4 tsk salt
12 fennelfræ, heil
Undirbúningur: 10 mínútur
Suðutími: 15 mínútur
Settu ólífuolíu í pott og steiktu fínsaxaðan skallottulaukinn í 2-3 mínútur. Bættu nú bláberjum, sykri, hunangi, ediki og kryddi út í, hrærðu vel og láttu sjóða þar til fer að þykkna eða í 8-12 mínútur. Ef þú vilt hafa chutneyið þykkt þá geturðu soðið það niður í lengri tíma.
Settu í sótthreinsaðar/hitaðar krukkur og skrúfaðu lokið vel á. Geymist í ísskáp í 3-4 mánuði.
Endilega smellið einu like-i á
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.