Blæðingar eru blæðingar frá legi sem renna út gegnum leggöngin. Blæðingar eru þáttur í heilbrigðri líkamsstarfsemi kvenna. Tíðir vísa til þess að sama mynstrið endurtekur sig með reglulegu millibili, þ.e.a.s einu sinni í mánuði.
Allar konur fá blæðingar þegar þær verða kynþroska.
Hvers vegna fá stúlkur blæðingar?
Til innri kynfæra kvenna teljast báðir eggjastokkarnir, báðir eggjaleiðararnir, legið og leggöngin.
Stúlkur fæðast með eggvísa í eggjastokkum sínum sem við kynþroska þroskast fyrir tilstilli hormónanna östrogens og LH, í eggfrumu.
Þegar eggið er þroskað losnar það úr eggjastokknum og fer eftir eggjaleiðaranum og niður í legið.
Fyrir áhrif áðurnefndra hormóna, býr slímhimna legsins sig undir að taka við egginu, og þriðja hormónið tekur þátt í ferlinu. Ef eggið hefur frjóvgast, býr það um sig í leginu.
Ef eggið hefur ekki frjóvgast, minnkar prógesteron-hormónið og slímhúðin í leginu losnar og blæðingar hefjast.
Tíðablóðið samanstendur af slímhúðinni sem losnað hefur frá leginu og dálitlu af nýju blóði sem stafar frá yfirborðsblæðingum í leginu.
Það blóð sem tapast við hverjar blæðingar er að samanlögðu ekki meira en um það bil 1 1/2 dl. Tíðahringurinn er mismunandi milli kvenna en algengast er að hann sé u.þ.b. 28 dagar (+/- 5 dagar) og endurtekur sig sífellt, þannig að slímhimnan í leginu er alltaf fersk og frjósöm. Verði konan ófrísk, breytist öll hormónastjórnunin.
Hvenær byrja blæðingar?
Nú á dögum fá stúlkur fyrstu blæðingar þegar þær eru 10-15 ára en meðalaldurinn er 12,5 ár.
Konur hafa blæðingar fram til 45 til 55 ára aldurs eða þar til tíðahvörf verða. Að meðaltali fá konur blæðingar um það bil 500 sinnum á ævinni.
Verður vart við egglos?
Sumar konur verða varar við það þegar þær hafa egglos. Þær finna fyrir vægum verkjum í kviðnum. Sumar konur fá líka smáblæðingar í miðjum tíðahringnum.
Þær sem ekki verða varar við egglos, geta mælt líkamshitann til að tímasetja það. Það þarf að hafa í huga að líkamshitinn hækkar um 0,2 -0,5 gráður þegar egglos hefur átt sér stað, sem þíðir að egglos hefur þegar átt sér stað þegar hitahækkunin mælist. Til þess að konur geti nýtt sér þessa aðferð sem best er mikilvægt að gera sér grein fyrir þessu og jafnvel reikna með því að eggið hafi losnað frá eggjastokknum daginn áður en hitahækkunin kemur fram.
Það er hormónið prógesteron sem veldur hækkun líkamshitans.
Ef mæla á líkamshitann verður að gera það við lok blæðinga. Mælingin á að fara fram á hverjum morgni áður en farið er á fætur og til að fá sambærilegar niðurstöður, verður að alltaf að nota sömu aðferð við mælinguna.
Ef líkamshitinn hækkar má gera ráð fyrir að egglos hafi hafist síðasta sólarhringinn. Það gerist yfirleitt u.þ.b. 14 dögum fyrir blæðingar, eða 12 – 16 dögum frá fyrsta degi síðustu blæðinga miðað við 28 daga tíðarhring.
Ef fylgst er með útferð úr leginu er hægt að sjá að í kringum egglos verður útferðin slímkennd og meiri. Þegar útferðin eykst og verður teygjanlegri er upplagt að reyna að búa til barn þar sem aukin útferð auðveldar sæðinu uppsundið.
Hvað hefur áhrif á blæðingar?
Eins og sést á lýsingunni hér að framan eru blæðingar kvenna allflókið ferli sem krefst samvinnu margra hormóna, líffæra og taugakerfis. Það eru einkum hormónarnir sem hafa áhrif á blæðingarnar. Ef hormónarnir breytast, breytist tíðahringurinn einnig.
Þyngd:
Það hefur góð áhrif á hormónajafnvægið og þar með blæðingarnar ef tekst að halda kjörþyngd.
Of lítil þyngd getur hamlað virkni hormóna og stöðvað blæðingar. Þetta er algengt hjá stúlkum sem haldnar eru átröskun (anorexia nervosa) og kemur fyrir hjá konum sem þjálfa íþróttir meira en góðu hófi gegnir. Hollt mataræði er því mikilvægt. Nýjustu rannsóknir hafa sýnt fram á að konur sem eru alltof þungar verða líka fyrir hormónaröskunum. Það er til dæmis meiri erfiðleikum bundið fyrir þær en konur í kjörþyngd að verða þungaðar.
Streita:
Streita getur haft áhrif á hormónana og þar með blæðingarnar. Margar konur hafa orðið fyrir því að fá ekki blæðingar ef þær eru undir miklu álagi af einhverju tagi en það getur haft áhrif á blæðingarnar.
Sama getur orðið uppi á teningnum ef kona óttast að verða þunguð og bíður þess í ofvæni að blæðingar hefjist, en það getur orðið til að seinka þeim.
Hreyfing:
Gott líkamlegt ástand og regluleg hreyfing hefur góð áhrif á blæðingarnar. Það hjálpar til við að hafa reglu á blæðingunum og draga úr tíðaverkjum. En ef konur ofgera sér í líkamsþjálfuninni, getur það haft þau áhrif á hormónana að blæðingar stöðvast.
Hvaða óþægindi eða verki geta blæðingar haft í för með sér?
Það er mjög mismunandi hvort konur verða fyrir óþægindum vegna blæðinga. Sumar verða einskis varar en aðrar finna svo mikið til að það raskar daglegu lífi.
Einkennin geta verið:
- krampakenndir samdrættir í móðurlífi
- móðurlífsverkir
- verkir í lendunum
- ógleði, stundum með uppköstum
- niðurgangur
- svitaköst
- þreyta, magnleysi.
Hvers vegna finna sumar konur fyrir óþægindum og verkjum við blæðingar?
Ekki er til nein ein skýring á tíðaverkjum en margar tilgátur eru uppi um það.Það er hormónið próstaglandín sem veldur samdráttum í leginu.Verkirnir stafa af þeirri útvíkkun sem verður í leghálsinum þegar blóð og vefjaleifar finna sér leið út úr leginu.Stundum má rekja rót tíðaverkjanna til góðkynja vöðvahnúta í leginu.Það er vitað að í sumum tilfellum eru óþægindin arfgeng.
Hvað er hægt að gera?
Það er ýmislegt sem hægt er að gera til að draga úr óþægindum:
- best er að sleppa að drekka koffínríka drykki á meðan á blæðingum stendur, til dæmis kaffi, te, kóla-drykki og kókó
- forðast álag. Slaka á, fá maka eða vin til að nudda sig
- iðka líkamsæfingar. Það kann að virðast ankannalegt en það er samt mjög til bóta! Það sakar ekki að reyna!
- verma kvið og lendar með hitapoka
- halda á sér hita. Drekka heitan drykk
- stundið kynlíf – fullnæging hjálpar.
- jafnvel nota verkjastillandi lyf. Best er að ráðfæra sig við lækninn um lyf sem standa til boða.
Grein birt með góðfúslegu leyfi Doktor.is