Margar höfum við lent í því að fá blöðrubólgu. Það er fátt sem er verra en slæm blöðrubólga, ég hef verið einstaklega slæm, fæ hita og mikla verki og það er orðið þannig að sýklalyf virkar varla. Ég get svo svarið það að mig langar að slá fólk sem ráðleggur mér að “drekka bara nog af trönuberjasafa, það lagar þetta” það getur hentað einhverjum en það hentar EKKI öllum og virkar ekki fyrir alla, gerir t.d. ekkert fyrir mig þó ég hafi bæði drukkið safann og tekið hylki samviskusamlega í langan tíma. Hér fyrir neðan er smá samtekt um blöðrubólgu fyrir ykkur sem eruð að díla við þetta.
Blöðrubólga er mjög algengur kvilli og fá konur hana mun oftar en karlar. Talið er að allt að 70% kvenna hafi einhvern tíma fundið fyrir blöðrubólgueinkennum. Sennilega má rekja þessa hærri tíðni meðal kvenna til þess, að þær hafa mun styttri þvagrás en karlar þó fleiri atriði geti komið til.
Konur sem eru að byrja á breytingaskeiðinu, fá gjarnan einkenni frá þvagrás, þar sem kvenhormónið östrógen minnkar í blóðinu. Ástæðan er að þekjan í þvagrásinni og blöðrubotni er háð östrógenum.
Orsök blöðrubólgu eru oftast bakteríur sem eiga uppruna sinn í ristli og endaþarmi eins og E.coli, Klebsiella, Proteus mirabilis og Streptococcus faecalis. Endurteknar blöðrubólgur geta verið af sama stofni sýkla eða frá öðrum bakteríum. Aðrir sýklar en frá meltingarvegi geta líka valdið sýkingum eins og Herpes virus hominis, Chlamydia og jafnvel lekandabakterían.
Sýkillinn berst upp þvagrásina og upp í þvagblöðru þar sem hann veldur bólgu í blöðruþekjunni svo hún verður aum og þrútin. Við þetta eykst tilfinning fyrir þvaglosun þannig að endurtekin þvaglát eiga sér stað þrátt fyrir að blaðra sé aðeins hálf af þvagi. Önnur helstu einkenni blöðrubólgu eru sviði við þvaglát, verkur í nára fyrir og eftir þvaglát. Þegar lengra líður á getur þvagið orðið gruggugt og illa lyktandi, einnig getur komið blóð með þvagi. Einnig fylgja oft verkir rétt ofan við lífbeinið.
Það er mikilvægt fyrir blöðruna að tæma sig reglulega, því þannig ná sýklarnir ekki að fjölga sér. Margir sjúklingar fá síendurteknar blöðrubólgur vegna sama sýkilsins, sem upprunninn er frá ristli.
Drekka skal mikið af vökva til að auka flæðið í gegnum líkamann, minnst 2 lítra á dag. Helst vatn, en te og ferskur nýpressaður ávaxtasafi eru einnig góðir vökvar, eins trönuberja- og sólberjasafi. Einnig er mikilvægt fyrir konur að pissa eftir samfarir þar sem að hættan á bakteríusýkingu er mikil eftir samfarir. Mikilvægt er að klæða sig vel, því að kuldi hefur slæm áhrif á blöðrubólgu. Einnig getur gagnast að fara daglega í heitt bað. Gott getur verið að bera AB-mjólk útvortis, það kælir og slær á utanverðan sviða og eins vinna gerlarnir í henni á bakteríunum, gott að gera þetta fyrir nóttina og vera bara í bómullarbuxum.
Hér að neðan er listi af nokkrum remedíum sem að hafa reynst vel við einkennum blöðrubólgu, en tekið skal fram að ávallt er heillavænlegast að leita sér aðstoðar hjá reyndum hómópata, til að auka líkur á að rétt remedía sé valin:
Cantharis einkenni koma mjög snöggt og eru mjög sterk. Verkur er mikill og brennandi. Bruni, sviði á húð á utanverðum kynfærum. Verkur fylgir, neðarlega á kvið og neðarlega á baki. Blóð getur verið í þvagi, oftast við lok bunu og lítið magn þvags kemur í hvert sinn. Þörfin fyrir að pissa kemur mjög snöggt og er sífelld, tilfinning um að geta aldrei tæmt blöðruna. Verri við að pissa, að drekka kalt, heyra vatn renna og við snertingu, seinnipartinn og við hreyfingu. Betri við hita, hvíld og nudd, á morgnana og á kvöldin.
Mercurius corrosivus einkenni koma snöggt. Mikill verkur, eins og sé að brenna að innan. Getur komið blóð strax í upphafi bunu. Þvag er illa lyktandi. Járnbragð í munni eða blóðbragð. Verri á næturnar, við hita og kulda til skiptis. Svitna mikið. Betri við hvíld.
Aconite einkenni koma snöggt, mikil særindi. Þvag er heitt og brennur. Byrjar oft eftir að hafa orðið kalt. Eirðarleysi, kvíði og hræðsla um að deyja fylgja. Verri við kulda, á nóttunni, við tilfinningasveiflur og hræðslu. Betri við ferskt loft og hita.
Nux Vomica einkenni eru mikil þörf fyrir því að pissa. Mikill sársauki á meðan verið er að pissa. Þarf að fara oft en lítið kemur. Fylgir kuldi, pirringur, þörf fyrir að vera ein og svefntruflanir. Verri snemma morguns, kuldi, reiði og þrýstingur, þarf að losa um föt. Betri eftir að pissa, við hvíld og svefn, að liggja á hlið og að drekka heita drykki, á kvöldin og að fara í heitt bað.
Pulsatilla einkenni eru að þurfa að pissa oft og um leið og eitthvað kemur í blöðruna, þvag kemur oft í dropatali. Ekki eins mikill sársauki við þvaglát, mildari. Verri við að leggjast niður, liggja á bakinu,að verða blaut í fæturna, á kvöldin, við þungt loft. Betri við ferskt loft, við nudd og þrýsting og mjúka hreyfingu.
Apis einkenni eru mikil þörf fyrir að pissa, brennandi, stingandi verkur, sem versnar, áður en byrjað er að pissa og um leið og byrjað er. Þvag er gruggugt og lyktar mikið. Verri við hita, heita drykki, heitt bað og snertingu. Betri við kalt loft, kalt bað og hreyfingu.
Staphysagria einkenni eru stanslaus brennandi tilfinning. Finnst eins og stöðugt leki dropar. Móðgast auðveldlega og reiðist. Verri við þrýsting á blöðruna, að drekka ekki nógan vökva. Betri við hita og góðan nætursvefn.
Sarsaparilla einkenni eru að mjög sárt er að pissa, verst í lok bununnar. Þarf helst að standa á meðan að pissar, Verra við kulda og raka, á nóttunni og við hreyfingu. Betri við að standa.
Natrum Carbonicum einkenni eru að þvag er mjög dökkgult og er mjög sterkt lyktandi (eins og hestapiss). Brenandi verkur á meðan og eftir að pissar. Verri við hita, dragsúg og kalda drykki. Betri við að borða, hreyfingu, nudd og þrýsting.
heilsubankinn.is