,,Blöskraði umræðan á samfélagsmiðlum á meðan á undankeppni Eurovison stóð”

,,Ég átti auðvitað alveg von á þessu, þetta er eitthvað sem gerist árlega” segir Unnur Birna Björnsdóttir söngkona. Unnur Birna tók þátt í undankeppni Eurovision síðastliðið laugardagskvöld og söng lagið Piltur og stúlka ásamt Birni Jörundi, Pétri Erni og Hafrúnu Kolbeinsdóttur. Unni Birnu blöskraði umræðan sem átti sér stað á helstu samfélagsmiðlum á meðan keppninni stóð og fyrstu dagana á eftir. Hún birti eftirfarandi stöðuuppfærslu á Facebooksíðu sinni í kjölfarið:

1

,,Ég fylgist lítið með þessu sjálf en auðvitað heyrir maður alltaf af þessu. Það merkilega er að þú getur lesið fjöldann allan af jákvæðum athugasemdum en svo sérðu eina neikvæða og það er hún sem situr eftir.” Unnur Birna segir ótrúlegt hvað fólk leyfir sér að skrifa á Facebook, það sé ekki bara að gagnrýna lögin sem taka þátt heldur kemur það með ýmsar aðfinnslur – jafnvel sem tengjast persónum þátttakenda og eru tónlistnni alls óviðkomandi. ,,Fólk áttar sig ekki á því að allir á Íslandi tengjast, þú getur skrifað eitthvað ógeðslegt um mig á internetið og svo mæti ég þér í Bónus daginn eftir – þetta er ekkert eins og að koma með ljóta athugasemd um stórstjörnu úti í heimi, einhvern sem er í órafjarlægð frá þér.”

Aðspurð segist Unnur Birna hreinlega ekki skilja af hverju ákveðnir aðilar leggi það á sig að fylgjast með undankeppninni. ,,Sumir virðast gera það einungis til þess að geta stundað einhverskonar niðurrifsstarfsemi og enn aðrir virðast bara ekki átta sig á því að þeim er fullfrjálst að slökkva á sjónvarpinu eða skipta um stöð”. Unnur Birna segist sjálf vera búin að byggja upp ákveðinn skráp en hún hafi þó haft áhyggjur af ungu keppendunum sem stigu á svið á laugardagskvöldið. ,,Þarna voru 16 ára krakkar á sviðinu, ég veit að ef ég væri 16 ára myndi ég leita uppi allt sem væri skrifað um mig og lesa það. Þetta eru krakkar sem eru að stíga sín fyrstu skref í bransanum og hafa ekki séð allt ógeðið sem getur fylgt honum.”

,,Af því að tónlistarmenn eru opinberar persónur þá máttu bara segja hvað sem er um þá – þig má langa til að æla þegar þú sérð þá, skjóta þig í hausinn þegar þú heyrir í þeim og þar fram eftir götunum. Það eru ansi ógeðfelldir hlutir sem fólk lætur flakka, eitthvað sem það myndi aldrei segja bara í andlitið á næsta manni. En á bak við tölvuskjáinn virðst allt vera leyfilegt. ” Unnur segir flesta þó setja þessa hluti fram í hugsunarleysi en fólk verði að átta sig á því að á bak við hvern keppanda er fjölskylda, ættingjar og jafnvel börn sem geta lesið  allt sem skrifað er um hvern og einn.

,,Tónlistarmenn eru bara að vinna vinnuna sína, reyna að skemmta þér og öðrum. Við erum ekki að fremja nein voðaverk, vera vond við neinn eða koma illa fram. Fólk verður að muna að við erum flest á Facebook og öllum þessum miðlum. Þetta er ofboðslega lítið land. Aðgát skal höfð í nærveru sálar!”

Tengdar greinar:

Hvað má segja á Facebook? – Þjóðarsálin

Facebook getur valdið vanlíðan og dregið úr lífshamingju

Hvað ættum við að forðast á Facebook – Nokkur atriði

SHARE