BLW aðferðin sem allir eru að tala um

Ingibjörg er Hjúkrunarfræðingur og IBCLC brjóstaráðgjafi, hún er einnig að ljúka meistaranámi í hjúkrun með sérhæfingu í brjóstaráðgjöf og næringu barna.
Ingibjörg er stuðningskona við brjóstagjöf en stuðningskonur veita öðrum mæðrum ráð á jafningjagrundvelli.
Einnig veitir hún sérhæfða ráðgjöf um brjóstagjöf og mataræði barna.
Ég fékk að ræða við þessa kláru konu um BLW aðferðina sem allir eru að tala um.

Hvað er BLW ?
BLW er stytting á baby led weaning sem hefur verið þýtt á íslensku, barnið borðar sjálft.
Við erum vön því að þegar barn fer að borða fasta fæðu, þá gefum við því fyrst hrísmjölsgraut og svo grænmetis- og ávaxtamauk. Þetta var áður sagt að væri besta aðferðin þar sem grauturinn væri auðmeltanlegur og það væri svo auðvelt að kyngja. Foreldrið ræður þá alveg ferðinni hvað varðar magn og hvað fer ofan í barnið. Þetta getur skapað streitu í samskiptum við barnið á matartíma því að oft erum við búin að ákveða visst magn og leggjum áherslu á að barnið klári úr skálinni þó að það sé kannski búið að fá nóg. En hugsið bara að þegar börn eru á brjósti þá stjórna þau sjálf magninu, stundum bara stuttir sopar og stundum langar gjafir. Sjálf erum við líka misjafnlega svöng og höfum ekki alltaf jafnmikla lyst.

Hugmyndin af því að láta borða sjálft er að mauka ekki ofan í barnið og mata það heldur leyfa barninu sjálfu að handleika fæðuna og setja hana upp í sig. Þetta á sér erlenda fyrirmynd en aðferðin er kennd við heilsugæsluhjúkrunarfræðing sem heitir Gill Rapley en var það hluti af meistaraverkefni hennar að rannsaka þess aðferð, sem henni sem móður fannst mjög athyglisverð. Hún komst m.a. að því að börn ættu ekki að byrja að borða fyrr en þau geta sjálf sett fæðu í munninn án aðstoðar foreldranna. Hún fann út að þessum þroska ná börn venjulega um 6 mánaða aldur, kannski fyrr og stundum seinna. Með því að leyfa barninu að ráða ferðinni, þá urðu matmálstímarnir skemmtilegir og áreynslulausir. Hún gaf út bók um aðferðina og hefur víða haldið fyrirlestra um efnið. Með því að ráða ferðinni, stjórnar barnið frá upphafi hversu mikið það borðar, verður nýjungagjarnara á bragð og áferð og borðar fljótlega sama fjölskyldumat og aðrir.

Hvaða kostir fylgja aðferðinni fyrir barnið og foreldra ?
Þegar barnið tyggur fæðuna losnar munnvatn og meltingarensím sem hvetja til meltingar en það gerist síður þegar þau kyngja mauki. Þjálfun kjálkanna við að tyggja er líka mikilvæg en við að borða graut og mauk reynir lítið á kjálkavöðvana. Einnig reynir þetta á hreyfiþroska, bæði grófhreyfingar og ekki síður fínhreyfingar. Það er einmitt kjarni aðferðarinnar: ekkert mauk, engir klakabakkar, ekki matvinnsluvélar eða töfrasprotar til að mauka, enginn hrísmjölsgrautur eða einkennilegt grænt grænmetismauk…. heldur bara sami matur og öll fjölskyldan borðar. Markmiðið með BBS er að barnið geti matast sjálft af fæðu sem hentar aldri, byrjað á einföldum og fáum tegundum en fjölbreytnin eykst dag frá degi, barnið ræður alveg ferðinni. Auðvitað velur foreldrið hvað er sett fyrir framan barnið en barnið sjálft velur hvað það tekur upp og setur upp í sig, hversu mikið og hvenær það vill ekki meira. Það er einmitt þetta sem er svo mikilvægt, að barnið ráði sínu magamáli og hætti þegar það er satt. Þetta hvetur til þess að barnið borði mátulega mikið og minnkar eflaust líkurnar á offitu þegar barnið verður eldra.

Kokviðbragðið er eitthvað sem sumir foreldrar óttast, er þörf á því?
Þetta er það sem flestir hafa áhyggjur af. Það er gerður munur á því hvort barn kúgist (gagging) eða að það standi í barni (choking). Þegar barnið byrjar að matast þá færir það matinn frá fremri hluta munns til aftari, þetta vekur oft upp svokallað kúgunarviðbragð en það er mjög sterkt framarlega á tungunni þegar börn eru ung. Látið ykkur ekki bregða þó að barnið kúgist aðeins, það getur í flestu tilfellum komið matnum út úr sér sjálft eða kyngt honum. Ef að hinsvegar stendur í barni og það nær ekki andanum verður að taka það strax upp, hvolfa yfir læri og slá í bakið, reynið ekki að fara upp í munninn og sækja bitann. Þetta er mjög sjaldgæft en sjálfsagt að vita hvernig á að bregðast við.
Öryggisatriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga eru:
-að barnið sitji alveg upprétt. Með því minnka líkur á að fæða geti færst aftur í kok og barnið ráði ekki við það.
-aldrei að setja bita upp í munn barnsins heldur að láta það sjálft gera það.
-Barn sem er að borða ætti alltaf að hafa fullorðinn hjá sér og það á auðvitað við hvernig sem barnið matast.
-Passa á að hafa ekki of smáa eða harða bita, hafa matinn mjúkan og í stórum bitum til að byrja með. Gott er að hafa stútkönnu með til að barnið geti sopið og bleytt matinn upp.

Getur þú nefnt eitthvað sem er gott að byrja á fyrir þær sem eru að byrja að gefa barninu sínu að borða ?
Það er gott að byrja á gufusoðnu grænmeti eða mjúkum ávöxtum í stórum bitum, sem barnið ræður við að halda á. Bitarnir verða að vera ílangir og það stórir að barnið nái taki og hluti af bitanum standi upp úr hnefa barnsins.
Dæmi um þetta er t.d. gufusoðið brokkolí og þá getur barnið haldið um stilkinn, gufustoðin gulrót eða rófubiti. Einnig er hægt að byrja á ávöxtum, s.s. hálfum banana sem barnið heldur á eða bita af mjúkri melónu en það er gott að miða við að bitinn sé það stór að barnið nái góðu haldi og á sumum ávöxtum og grænmeti getur verið sniðugt að hafa hýði á að hluta til að ná betra taki. Það er byrjað með einni tegund en smám saman er hægt að auka fjölbreytnina og bæta við brauði, skonsum, soðnu pasta og kjöti í stórum bitum sem barnið heldur á sjálft. Barnið tyggur ekki mikið fyrst enda hafa þau fæst tennur á þessum aldri. Þau eru samt að mýkja fæðuna upp og mjatla henni milli gómanna sem að þjálfar þau í að tyggja almennilega þegar þau fá tennur seinna. Það er mjög fljótlega sem að barnið er farið að borða flest sem foreldrarnir hafa í matinn.

Hvar geta foreldrar kynnt sér betur aðferðina ?
Ég er reglulega með námskeið um þessa aðferð og þar er farið vel í alla þá þætti sem að skipta máli
þegar þessi aðferð er notuð. Einnig er hægt að kaupa hefti sem fylgir námskeiðinu en það er stútfullt af
fróðleik um þessa aðferð en í því er líka næringarfræði, tillögur að matseðli og skemmtilegar
uppskriftir. Upplýsingar og skráning er á brjostagjof@gmail.com
Einnig er hægt að fá meiri upplýsingar um þetta efni á nýrri vefsíðu: www.barnid-okkar.is (ekki búin að opna hana ennþá )

SHARE