Ragga nagli birti þennan flotta pistil á Facebooksíðu sinni í dag. Geðveikt flott og fullkomlega viðeigandi á þessum degi:
Tungan er sundurbitin og kinnar nagaðar.
Naglinn hefur reynt að halda í sér bölsótinu en nú er mælirinn fullur og silkihanskarnir dregnir niður.
Netið er yfirfullt af upplýsingum um hversu margar kaloríur eru í páskaaegginu þínu og hversu lengi þarf að hlaupa, hjóla, synda, hoppa á einum fæti til að brenna þeim.
Þessi samviskubitsvæðing sendir pirringstaugar Naglans á yfirsnúning og eru á pari við hræðsluáróður kaþólsku kirkjunnar á miðöldum.
Gerum pöpulinn undirgefinn og nagaðan af sektarkennd.
Það eru páskar einu sinni á ári, það eru jól einu sinni á ári, þú átt afmæli einu sinni á ári.
Það eru þrjúhundruð og eitthvað aðrir dagar á árinu til að bæta upp fyrir smá slakan taum hér og þar.
Það er “partur af prógrammet fru Stella.”
Heilbrigður lífsstíll snýst um jafnvægi.
Meðvituð um hollustu 90-95% af tímanum getum við hleypt sykursnúðnum á skeið ÁN SEKTARKENNDAR 5-10% tímans og fléttað sætindin inn í planið.
Úr verður gleðileg tilvera en ekki sorg og sútur hangandi á kálblaði og kjúlla, og sykurpúkinn ólmast að vinna stórkostleg hryðjuverk fyrir afneitunina.
Eins og fyrri ár mun eins kílóa páskafótbolti frá Sambó gleðja svarthol Naglans þessa páska, síðasta ár dugði hann fram í september.
Það er nefnilega engin ástæða til að slátra heilu bílförmunum af súkkulaði, og slíkt færir þig afturábak. Það eru ekki ragnarök á morgun og súkkulaðiframleiðsla heimsins mun ekki stöðvast.
En það spikast enginn eins og aligæs á leið til slátrunar með að taka þátt í gleðinni með smá páskaegg og málshátt á kantinum.
Þú hendir þér svo bara aftur í gamla heilsusvingið á annan páskadag og sjálfsniðurrif, skaðastjórnun eða refsiaðgerðir eru ekki í boði.
Bölsóti lokið.
Gleðilega páska og njótið lífsins!