Börn notuð sem vopn

sárt er að sjá barn sitt gráta.

Undanfarið hefur verið mjög áberandi umfjöllun í flestum miðlum um tálmun sem feður verða fyrir af hálfu barnsmæðra sinna og hvernig barnsmóðir sem er ósátt við barnsföður sinn notar barnið sem vopn til að ná sér niðrá á pabbanum.

Ég er ekki vopn. Hættið að meiða mig!

Að mínu mati er þetta afar sorglegt, saklaust barn sem verður að vopni í höndum foreldris sem á að vera verndari barnsins og skjól en því miður er það oft þannig að foreldri virðist gleyma skyldum sínum við barn þegar reiði eða særindi við hitt foreldrið kemur upp.

Ekkert barn á að þurfa að upplifa sig í þeirri óþægilegu stöðu að þurfa að tippla á tánum á milli foreldra af ótta við að rugga óánægjubát móður eða föðurs eða jafnvel beggja.

Það að fá barn í hendur er mikil blessun og flestir foreldrar upplifa börnin sín sem það dýrmætasta í heimi en einhver beygla er á þroskakerfi fullorðinnar manneskju sem misnotar barn sitt þegar það verður fúlt út í hitt foreldrið.

Sjá meira: barnasattmalinn-i-mali-og-myndum/

Það er ekkert eðlilegt við það að barn þurfi að upplifa að það má ekki tala við eða um hitt foreldri sitt, né heldur að barn heyri annað foreldrið tala illa um hitt og jafnvel að foreldri segi barni að hitt foreldrið sé vont foreldri.

Ég velti því fyrir mér hvort barnaverndarlög og barnasáttmálar séu ekki nógu skýrir eða hvort þjóðfélagið okkar fylgi þeim ekki nægilega vel eftir.

Það er alveg skýrt að tryggja eigi velferð barns bæði andlega og líkamlega en samt virðis þessi andlegi þáttur oft verða að engu og foreldrar komast upp með að valda barni sínu vanlíðan með sinni hegðun í garð hins foreldris.

Gott foreldri hlýtur alltaf að setja velferð barns framar öllu og það er bara fullorðins að leggja til hliðar eigin óánægju og finna leið til að foreldrar geti átt samstarf í þágu barns þegar þeir búa ekki saman eða verða fúl út í hvort annað.

Það eru jú foreldrar sem bera ábyrgð á velferð barna.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here