Breytingaskeiðið er engin silfurskeið

Þegar ég leit í spegilinn í morgun blasti við mér eitt kolsvart sítt skegghár á hökunni!

Ég fölnaði upp og sá fyrir mér hvernig allir aðrir voru búnir að sjá það á undan mér, ég sem var með mörg hundruð manns á tónleikum í gær.

Kræst, fór svo á kaffihús með vinkonu og þar var fullt af fólki og ég bara konan með skeggið.

Oh…. þetta er alveg óþolandi, er ekki nóg að kvenmaður þurfi að vaxa eða raka hár á fótum frá kynþroska og undir höndum. Nei! Það vex í andlitinu á manni þegar þetta breytingaskeið á sér stað, hormónakjaftæði.

Í alvörunni af hverju er ekki bara töff að vera með eitt skegghár eða kannski væri hægt að gera eitthvað úr því. Amma mín heitin kallaði þessi hár gjarnan nornahár og mér finnst nornir töff.

Nei nei… plokka augabrýr og hökutopp það er málið þegar komið er á þetta breytingaskeið. Mér fyndist sanngjarnt að karlmenn þyrftu að upplifa túr á sínu breytingaskeiði.

Jemin hvað ég er grumpy….. en það fylgir líka!

Eigum við eitthvað að ræða aukin kostnað við viðhald eftir að breytingaskeiðið hefst. Uhhhh…. það er ekkert grín sko hvað það tekur miklu lengri tíma og betri snyrtivörur að ná fram þokkalegu útliti á venjulegum degi. Svo ég tali nú ekki um þegar sérstök tilefni eru og maður þarf að troða vömbinni í stokk og lyfta brjóstunum upp eða léttirinn þegar heim er komið eftir tilefnið að frelsa vömbina og brjóstin.

Af hverju er feita amman ekki ennþá í tísku og skegghár á ömmum merki um nornartengda hæfileika?

Jú jú ég er búin að heyra um tæknina og að hægt sé að fjarlægja öll hár í eitt skipti fyrir öll með lasertækni og jú það er hægt að sjúga úr manni fituna og allskonar uppfinningar til að slétta húðina og lyfta brjóstunum. Ég velti því fyrir mér hvort það ætti ekki að leggja til að þessar aðferðir séu niðurgreiddar af ríkinu, það hlýtur jú að vera betra fyrir alla að ömmur séu Gordjös!

Eða bara þetta gamla góða að sætta sig við hækkandi aldur og allt sem því fylgir…. nema skegghárinn finnst að það eigi að vera í lögum að hver amma fær ókeypis laser á þau.

 

 

 

 

 

SHARE