Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2013 verður haldin þann 20. apríl í Höllinni á Akureyri og úrslitunum sjónvarpað beint á RÚV klukkan 19.40.
Undankeppnin fer fram kvöldið áður, föstudagskvöldið 19. apríl, þar sem þrjátíu skólar keppa um að komast í úrslit. Dómnefndin, sem er skipuð Páli Óskari Hjálmtýssyni, Ragnhildi Gísladóttur og Agnesi Björt Andradóttur, velur ellefu lög sem komast áfram í úrslit en tólfta lagið er valið af almenningi með símakosningu. Á úrslitakvöldinu er það alfarið í höndum dómara að ákvarða hvaða skóli fer með sigur af hólmi.
Er þetta breytt fyrirkomulag frá því í fyrra þegar undankeppnin fór fram á mbl.is og dómarar völdu sex lög og sex lög voru valin með símakosningu. Á úrslitakvöldinu á síðasta ári gilti val dómnefndar á sigurvegara jafnt til móts við símakosningu.
Í fyrra var það Tækniskólinn sem bar sigur úr býtum þegar heill karlakór flutti lagið Stolt siglir fleyið mitt eftir Gylfa Ægisson og verður spennandi að sjá hvaða skóli hreppir hnossið að þessu sinni.
Sigurvegari keppninnar mun feta í fótspor landsþekktra Íslendinga eins og Margrétar Eirar Hjartardóttur, Emilíönu Torrini, Sverris Bergmann og Eyþórs Inga Gunnlaugssonar sem hafa borið sigur úr býtum í keppninni í gegnum tíðina. Enn fremur hafa margar af okkar skærustu stjörnum stigið sín fyrstu skref á sviði keppninnar, þar á meðal fyrrnefndur Páll Óskar Hjálmtýsson, Hera Björk Þórhallsdóttir og Regína Ósk.
Kynnar á úrslitakvöldinu í Höllinni laugardagskvöldið 20. apríl er Hraðfréttatvíeykið óborganlega, Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson.
Hljómsveitarstjóri húsbandsins í ár er Vignir Snær Vigfússon en hljómsveitina skipa Pálmi Sigurhjartarson á hljómborð, Óskar Þormarsson á trommur, Birgir Kárason á bassa og Gunnar Þór Jónsson á gítar.
Stjórn upptöku annast Guðni Halldórsson en framleiðendur eru Anna Vigdís Gísladóttir og Jón Haukur Jensson hjá Sagafilm.