Guðmundur Hafþórsson íþróttafræðingur og einkaþjálfari er að byrja með nýtt námskeið sem kallast Lífstílssprengjan og er fyrir alla þá sem vilja ná tökum á matarræðinu og bæta líkamlegt form. Við fengum Guðmund til að lýsa fyrir okkur hvernig námskeiðið mun fara fram:
Lífstílssprengjan er námskeið fyrir fólk sem hefur áhuga á því að skipta yfir í hollari og heilbrigðari lífstíl. Þetta er fjölbreytt og skemmtilegt námskeið þar sem fólk öðlast skilning á því hvað öll þessi aukahreyfing skiptir máli ásamt því hvað það er auðvelt að hreyfa sig.
Hópurinn mun æfa saman 3x í viku í 12 vikur. Á mánudögum verðum við í tækjasal í Ásgarði (Garðabæ) þar sem ætlunin er að lyfta lóðum en markmiðið verður að notast við fjölliða æfingar og vinna með allan líkamann.
Á miðvikudögum ætlum við svo að vera úti. Það er hægt að hreyfa sig í hvaða veðri sem er. Við munum notast að mestu við nánasta umhverfi og verð ég búinn að útpæla æfinguna áður en við byrjum og hvað við ætlum að gera. Rösk ganga, létt skott, stuttir sprettir, líkamsæfingar. Eins munum við þegar líður á námskeiðið fara í fjallgöngu. Markmiðið er að fara á Esjuna einusinni eða tvisvar.
Á föstudögum munum við svo vera í speglasal í Ásgarði þar sem við munum vinna með líkamsæfingar, armbeygjur, hnébeygjur kviðæfingar og þessháttar. Fólk fær að kynnast hinum ýmsu æfingum sem það getur hreinlega gert heima hjá sér. Einstaka sinnum munum við samt sem áður slaufa föstudagsæfingunni og taka æfingu í sundlauginni í Ásgarði – það er ýmislegt hægt að gera í sundlauginni annað en að synda!
Ekki nóg með þetta þá fá allir sem skrá sig á námskeiðið í hendurnar skrefamæli. Hér kemur aðal kúnstin. Fólkið fær verkefni fyrir hverja viku. Þegar við byrjum fá þau ákveðið magn af skrefum sem ég ætlast til að þau gangi á degi hverjum frá því að þau vakna þar til að þau fara að sofa. Þetta á að skrá niður gaumgæfilega og förum við reglulega yfir það. Nú þarf fólk virkilega að fara að spá í því að taka stigana frekar en lyftur, leggja bílnum aðeins lengra frá vinnunni en áður, fara úr strætó jafnvel einni stoppistöð fyrr…. það er ýmislegt sem það getur gert til þess að auka hreyfingu dagsins.
Ég mun fylgjast vel með mataræðinu, rétt eins og með skrefin þá tökum við þetta eitt skref í einu, breytum hlutunum í rólegheitum en ekki í einhverju offorsi. Skyndilausnir virka sjaldnast og því er erfitt að byrja að hreyfa sig, umturna mataræðinu og breyta öllum lífstílnum á einni viku, fólk gefst auðveldlega upp þannig.
Þetta verður fjölbreytt og skemmtilegt námskeið sem allir geta haft gagn og gaman að. Á þessu fyrsta námskeiði verða 15 manns og verður hægt að skrá sig hjá mér í gegnum e-mail eða síma. Ég ætla að bjóða upp á opinn fund í Ásgarði Sunnudaginn 25.ágúst klukkan 12. Þar mun ég fara yfir námskeiðið, hvað það er sem við munum gera, hvað ég legg upp með og hvað fólk getur séð fyrir sér gerast. Ég skora á alla til að mæta sem hafa áhuga og vilja til að sprengja upp gamla lífstílinn og byrja á nýjum, hollum og heilbrigðum lífstíl.
Þetta er námskeið sem MUN virka til frambúðar. Ef fólk mætir með viljann og er tilbúið í þetta andlega þá mun það ná árangri.