Ég er dálítið tækjasjúk. Eldhústækjasjúk nánar tiltekið. Ég hef engan áhuga á bílum (sem útskýrir 16 ára gamla gjörónýta Yarisinn sem ég keyri um á), sjónvörpum, símum eða slíku. Ekki nokkurn einasta. En ef við byrjum að ræða um blandara, matvinnsluvélar og vöfflujárn – ó, þá tekur hjartað kipp. Það gæti hugsanlega talist óeðlilegt að tæplega þrítug og ógift kona eigi þrjá blandara, tvær matvinnsluvélar, fáeina töfrasprota og fjögur vöfflujárn. Svo eitthvað sé nefnt. Þetta er einhverskonar manía sem við skulum ekkert ræða frekar.
Snúum okkur að vöfflunni. Í æsku bakaði mamma mín iðulega vöfflur eða pönnukökur á sunnudögum. Siður sem ég hef reynt að viðhalda eftir að ég flaug úr hreiðrinu. Ég vil hafa vöfflurnar mínar þykkar og dálítið djúsí. Svolítið stökkar og vel bakaðar.
Svo er sérstakt áhugamál hjá mér að prufa mig áfram með hinar ýmsu samsetningar ofan á vöffluna. Eins og þú munt sjá á komandi vikum. Spennandi, ekki satt? Jú, ég hélt það líka.
Hér gefur á að líta nýjasta meðlim heimilistækjaflotans. Heimilistæki úr burstuðu stáli fá einfaldlega sál mína til þess að syngja. Svona eins og þegar bíladellufólk sér BMW. Eða Benz. Eða hvað þeir allir nú heita.
Það er bráðnauðsynlegt að járnið sé dálítið djúpt – þykkar og djúsí, manstu? Djúp járn leka líka síður. Eins og þetta ágæta járn (sem ég er ennþá að reyna að réttlæta fyrir sambýlismanni mínum) – lekur bara ekki neitt.
Ég nenni að sjálfsögðu ekki að bauka með skálar, sleifar eða þeytara. Né vaska slíkan búnað upp. Vöfflumix í flösku fyrir mig, takk.
Dúndrum einum poka af Bingókúlum í pott.
Skvettum tæplega hálfum pela af rjóma út í. Sjóðum saman við vægan hita þar til kúlurnar bráðna. Og besta lykt í heimi fyllir vit þín.
Stökk vafflan, mjúkur ísinn og heit sósan – ég legg ekki meira á þig. Nánast eins og mök við bragðlaukana. Ég get svo svarið það!
Endilega fylgstu með vöfflubakstrinum á fimmtudögum hjá okkur á HÚN næstu vikurnar – ég er með ýmislegt í pokahorninu!
Tengdar greinar:
Frönsk súkkulaðikaka, ís og pecanhnetumulningur – Uppskrift
Banana og karamellu eftirréttur – Uppskrift
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.