Brjóstagjöf eða mjólkurduft?

Það leikur enginn vafi á því að brjóstamjólk er besta fæða sem hægt er að gefa ungbarninu. Brjóstagjöfin hefur einnig jákvæð áhrif á tengsl móður og barns og hjálpar móðurinni að jafna sig eftir meðgönguna og fæðinguna. Flestar konur á Íslandi kjósa að brjóstfæða börnin sín. Margar lenda í byrjunarerfiðleikum en þegar þær hafa yfirunnið þá eru þær oft með börnin sín á brjósti í marga mánuði. Aðalatriðið er að vera ákveðin í að barnið skuli vera á brjósti – þá er eftirleikurinn auðveldari.

Sumar konur kjósa þó að hafa barn sitt ekki á brjósti og geta ýmsar ástæður legið að baki. Ef því er þannig farið hjá þér er ráðlegt að ræða um það við ljósmóðurina sem annast þig í mæðraverndinni þannig að ákvörðun þín byggist á réttum grunni og þú lendir ekki í togstreitu með hana síðar.

Einnig kemur fyrir að konur geta ekki haft barn á brjósti. Ýmsir sjúkdómar geta hindrað brjóstagjöf og konur sem farið hafa í brjóstaminnkun hafa oft ekki næga mjólk að gefa barninu. Ef þú ert í vafa um hvort þú getur gefið brjóst ræddu þá við ljósmóðurina sem annast þig því til eru ráð sem gera konum kleift að hafa barn á brjósti þrátt fyrir hindrandi þætti.

Sjá einnig: Fallegar myndir af brjóstagjöf

Það er skynsamlegt að nýta meðgöngutímann til að leita sér sem mestra upplýsinga um brjóstagjöf og pelagjöf, kosti þeirra og galla, þannig að þú getir tekið upplýsta ákvörðun sem tekur mið af þörfum þínum, barnsins og annarra í fjölskyldunni.

Hvers vegna er brjóstagjöf góð?

Brjóstagjöfin er aðferð náttúrunnar við að næra ungbörn. Spendýr mynda mjólk sem er aðlöguð þörfum tegundarinnar. Selamjólk er t.a.m. mjög feit til að litlu kóparnir myndi spiklag til að halda á sér hita í köldum sjónum, kúamjólk inniheldur mikið af prótíni til að kálfurinn stækki hratt og verði fljótt sjálfbjarga, en mjólk mannsins, móðurmjólkin, inniheldur hátt hlutfall fjölómettaðra fitusýra og sykrunga sem flýta fyrir þroska heila og tauga. Móðurmjólkin mætir öllum þörfum barnsins fyrir næringu fyrstu mánuðina og brjóstagjöfin skapar náin tengsl milli móður og barns. Að auki ver móðurmjólkin barnið gegn sýkingum, sérstaklega meltingar- og loftvegasýkingum, þar sem hún inniheldur mótefni frá móðurinni. Það má líkja því við að barnið fái daglega smá skammt af bóluefni við öllum helstu sjúkdómum, t.d. kvefi. Brjóstagjöfin seinkar einnig og ver barnið fyrir ofnæmismyndun svo lengi sem það fær ekki ofnæmisvalda úr annarri fæðu. Til viðbótar inniheldur brjóstamjólkin einnig efni sem halda hægðum barnanna mjúkum.

Brjóstagjöfin hefur einnig kosti fyrir móðurina. Brjóstagjafarhormónin virka róandi á hana, hún getur hvílst meðan hún gefur brjóst, leg hennar dregst hraðar saman og það blæðir minna eftir fæðinguna, fituforðinn frá meðgöngunni eyðist hraðar og konur sem hafa börn sín á brjósti eru í minni hættu á að fá brjóstakrabbamein.

En brjóstagjöfin er þó ekki síður mikilvæg fyrir góð samskipti milli móður og barns og uppfyllir þörf barnsins fyrir nálægð og öryggi jafnframt því sem hún gefur móðurinni gott tækifæri til að kynnast barninu sínu, spjalla við það og njóta samverunnar.

Sjá einnig: Er brjóstagjöf getnaðarvörn?

Brjóstagjöfin er einnig mjög hentug því ekki þarf að eyða peningum í þurrmjólkurduft, pela og túttur eða tíma í að sótthreinsa pela og útbúa mjólkurblöndu eða hafa áhyggjur af hitastigi eða samsetningu mjólkurinnar.

Mjólkin er til taks – einnig á nóttunni. Hentugra getur það ekki verið.

Eru þá engir gallar við að hafa barn á brjósti?

Í rauninni er ekki hægt að tala um galla við brjóstagjöf aðra en þá sem fylgja því að verða foreldrar. Konur kvarta stundum undan því að þær séu svo bundnar ef þær eru með barnið sitt á brjósti. En um leið og þið verðið foreldrar eruð þið bundin – hvort heldur barnið er á brjósti eða pela. Þið hafið tekið á ykkur þá ábyrgð sem fylgir því að eignast barn og barnið þarf á ykkur að halda. Brjóstagjöfin er einungis hluti af þeirri bindingu sem fylgir því að verða foreldrar.

Er í lagi að nota þurrmjólk?

Þurrmjólk er besti kosturinn ef ekki er með nokkru móti unnt að gefa barni móðurmjólk. Til eru margar tegundir af þurrmjólkurdufti. Ekki er mikill munur á innihaldi milli tegunda. Flestar tegundir eru búnar til úr kúamjólk sem er unnin þannig að hún innihaldi þau efni sem barnið þarfnast í sem réttustum hlutföllum. Einnig er til þurrmjólk sem er unnin úr soyjabaunum fyrir þau börn sem þola ekki kúamjólk. Gættu þess að kaupa duft sem hæfir aldri barnsins. Einnig er áríðandi að skammta þurrmjólkina nákvæmlega eins og hæfir þyngd barnsins.

Blöndun þurrmjólkur

Á umbúðunum eru upplýsingar um skammtastærðir. Ef blandan er of sterk eða dauf getur barnið orðið veikt. Notið mæliskeiðarnar sem fylgja með í pakkanum. Ein skeið er sléttfull skeið og er best að taka kúfinn af með hníf eða sléttu áhaldi.

Ef þú notar þurrmjólk er nauðsynlegt að gæta hreinlætis. Það verður aðþvo pelana og tútturnar úr heitu sápuvatni eftir hverja notkun og skola og sjóða bæði túttur og pela einu sinni á sólarhring. Þegar þú blandar þurrmjólkina áttu ætíð að nota soðið vatn. Þú getur vel blandað í nokkra pela í einu, en mundu að snöggkæla mjólkurblönduna strax undir rennandi köldu vatni. Eftir það þarf að geyma mjólkurblönduna í kæliskáp.

Aldrei má geyma mjólkurblönduna meira en sólarhring. Ef barnið lýkur ekki úr pelanum verður að fleygja afgangnum og eins má ekki geyma mjólkina lengur en klukkustund í stofuhita. Ekki er ráðlegt að geyma tilbúna mjólkurblöndu á hitabrúsa. Þá helst hún við 37°C hita sem eru kjöraðstæður fyrir bakteríur til að fjölga sér. Barnið á þá á hættu að fá magasýkingu. Ef þú vilt nota hitabrúsa, geturðu geymt í honum sjóðandi vatn og haft hæfilegan skammt af mjólkurduftinu í pelanum og blandað því saman rétt fyrir notkun.

Mjólkurblandan á að vera 37°C heit. Þú finnur það með því að mæla nokkra dropa á innanverðum úlnliðnum eða handarbakinu. Mjólkin á hvorki að vera heit né köld viðkomu. Ef þú ert ekki viss geturðu mælt hana með hitamæli. Ef þú hitar pelann í örbylgjuofninum er mikilvægt að þú gerir þér grein fyrir að mjólkin er miklu heitari inni við miðju en yst. Hristu því pelann vel fyrir notkun og athugaðu hitastigið svo að barnið brenni sig ekki.

Þættir sem þarf að athuga við pelagjöf

Barn sem fær pela hefur líka þörf fyrir nærveru og snertingu. Haltu því alltaf á barninu meðan þú gefur því pelann. Horfðu í augun á því og spjallaðu við það og snertu það meðan það er að drekka. Sé barnið látið liggja með pelann missir það af samneytinu, nálægðinni og snertingunni sem hafa svo mikið að segja fyrir heilbrigði og þroska barnsins.

Hvort sem þú velur brjóst eða pela verða þarfir barnsins alltaf að vera í fyrirrúmi þar sem það er algerlega háð því að foreldrarnir annist það á þann besta hátt sem þeir geta og veiti því ástúð og öryggi.

 

SHARE