Brotin sál – Saga íslenskrar konu

Brotin sál.

Ég ólst upp hjá fullorðinni föðurömmu og drykkfelldum og ofbeldishneigðum sambýlismanni hennar, einnig bjó á heimilinu hálffullorðin föðursystir mín. Híbýli okkar var lítil kjallarahola í Þingholtunum í Reykjavík, stofa og svefnherbergi ásamt eldhúskytru og salerni. Amma drýgði tekjurnar með því að fara út í bæ og spá fyrir fólki, hún klæddist ávallt peysufötum og tók í nefið, hún var elskuleg kona og vildi mér vel, en hún leitaði sífellt eftir því að gera öðrum til hæfis og þá helst sambýlismanni sínum þar sem hann leið engum að vera öðruvísi en honum hentaði. Þetta hafði óneitanlega mikil áhrif á mig, ég varð öryggislaus og tortryggin því að akkerið, hún amma, sagði stundum eitt í dag og annað á morgun, en sem barn skildi ég ekki ástæðuna.

Stundum var ég send niður að höfn til þess að sníkja ýsu í soðið, karlarnir bundu band í fiskinn til að auðveldara yrði að bera hann heim, til að byrja með dróst sporðurinn eftir götunni en eftir því sem ég stækkaði auðveldaðist málið.  Það var gott að fá nýja ýsu að borða, tilbreyting frá skyrinu sem etið var nánast upp á hvern einasta dag, ekki mátti hræra það út hvorki með vatni eða mjólk, svo bauð húsbóndinn á heimilinu.

Faðir minn dó þegar ég var aðeins 2ja mánaða gömul, móðir mín fór út á land til að vinna fyrir sér og hafði ekki tök á að taka mig með sér og ala mig upp. En stundum kom hún í heimsókn og hafði með sér eitthvað fallegt handa mér oft voru það fallegir kjólar, en af einhverjum ástæðum fór ég aldrei í þá, þeir hurfu bara. Ég var feimin við þessa fallegu og hressilegu konu, móður mína, mig langaði að snerta hana, það var góð lykt af henni, en ég þorði það ekki, bara stóð og horfði og lét sem minnst fyrir mér fara. Mig dreymdi um að þannig ætlaði ég að verða þegar ég yrði stór, hætta að ganga í þessu andstyggilega koti sem stakk, hnausþykkum gammósíum og kjólgopa sem krakkarnir í skólanum stríddu mér miskunnarlaust á.  Ég ætlaði líka að eignast marga fallega hluti, mann og börn.  Amma átti reyndar nokkra fallega hluti t.d. silfurneftóbaksdósina með upphafsstöfum sínum gröfnum í, en það varð allt hálfgerður hégómi þegar móðir mín birtist, sveipuð þessum dýrðarljóma.

Ég stækkaði og varð unglingur, eignaðist vinkonur, stundum gengum við niður í bæ eða upp á Arnarhól.  Í einni slíkri gönguferð á Arnarhóli þegar ég var 16 ára komu 2 Ameríkanar hjólandi, ungir menn í einkennisbúningum, annar þeirra bauðst til að reiða mig, ég þáði boðið og við hlógum og skemmtum okkur.  Þetta var sú besta upplifun sem ég hafði átt á ævi minni, við hittumst oft eftir þetta og urðum góðir vinir, ég elskaði það að ganga með honum um götur bæjarins og lét sem ég heyrði ekki pískrið né sæi augnagoturnar.  Ég var ástfangin, en sú þráláta hugsun læddist þó að mér að þetta væri of gott til að vera satt, hvernig stóð á því að þessi glæsilegi maður leit við mér?, mér sem átti ekki kápuna sem ég gekk í, mér sem aðstæðna minna vegna gat ekki boðið honum heim, mér sem var ekki einu sinni falleg!

Kvöld eitt gekk amma á mig og innti eftir því hvort ég væri með barni, reyndar hafði það hvarflað að mér en ég kaus að hafa ekki orð á því við nokkurn mann.  Mér var skipað að koma heim með barnsföðurinn til þess að hann gæti svarað fyrir það hvað hann ætlaðist fyrir. Hann fékkst ekki til þess heldur sagði mér að hann ætti unnustu og barn í Ameríku, hann gat ekki svikið þau, enda var tími hans að renna út á Íslandi.  Mér var aftur á móti tjáð að ég mætti vera heima þar til barnið væri fætt, þá skyldi ég hypja mig, fá mér leigt herbergi og sjá um mig sjálf, barnið yrði gefið.

Ég eigra um göturnar full af óþoli, allslaus, mér finnst ég alls staðar sjá barnið sem ég fékk aldrei að njóta, drenginn sem var tekinn frá mér áður en ég gat svo mikið sem gefið honum brjóst.  Ég er niðurbrotin sál sem lét undan lífsins ólgusjó, sjálfsmyndin er mölbrotin.  Hver á að raða brotunum saman?

 

SHARE