Buðu konum fyrirtækisins að fara í krabbameinsskoðun

Nú er bleiki mánuðurinn að líða undir lok og vonandi hafa sem flestar konur farið í krabbameinsleit og látið heilsu sína vera í fyrirrúmi. Á hverju ári greinast um 700 íslenskar konur með krabbamein, samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins.

Um 210 konur greinast ár hvert með brjóstakrabbamein. Helmingur þeirra er á aldrinum frá 50 til 69 ára en þær yngstu á þrítugsaldri. Um níunda hver kona getur búist við að fá brjóstakrabbamein. Ár hvert deyja 35 – 40 konur úr brjóstakrabbameini.

Þessar tölur eru af heimasíðu Bleiku slaufunnar og eru vissulega sláandi.

Opin kerfi og starfsmenn létu sitt ekki eftir liggja þegar kemur að því að taka þátt í átaki Krabbameinsfélagsins og söfnuðu peningum fyrir félagið og allar konur innan fyrirtækisins fengu að fara í krabbameinsleit sem fyrirtækið borgaði.

„Við viljum ekki að það séu neinar týndar drottningar hjá okkur og borgum þess vegna skoðunargjaldið,“ segir Gunnar Guðjónsson, forstjóri Opinna kerfa.

Hér er stutt myndband frá stemningunni og þegar Krabbameinsfélaginu var afhentur styrkur frá starfsmönnum og fyrirtækinu.

 

Þetta verðuga verkefni Opinna kerfa vakti athygli okkar á Hún.is og viljum við leita til ykkar lesenda og biðja ykkur að deila með okkur fleiri svona atvikum, ef þið þekkið til þeirra.

SHARE