Ofurfyrirsætan Cara Delevingne fetar hiklaust ótroðnar slóðir; hún er alfyrsta ofurmódelið sem hefur tekið samskiptamiðlana traustataki og er óhrædd við að opna dyrnar sem liggja að einkalífinu.
Ítarlegt viðtal við Cara er að finna í júníútgáfu Telegraph Magazine þar sem hún ræðir meðal annars ástarævintýri sitt við bandaríska ofurkroppinn Michele Rodriguez, platónska vináttu sína við karlmenn, kanínuna sem hún gekk í móðurstað eftir að hafa setið fyrir með hnoðranum fyrir tískuþátt og síðast en ekki síst; samstarfið við Mullberry sem ól af sér ómótstæðilegar hliðartöskur / bakpoka sem bera einfaldlega nafnið Cara Delvingne.
Hvað finnst mér? Mér finnst að fólk ætti ekki að vera hrætt við einmitt það. Ég er ung. Ég skemmti mér. Ég vil ekki þykjast vera einhver sem ég er ekki. Svo mér er alveg sama hvort það skiptir máli eða ekki. Fólk getur sagt það sem því langar, en ég skemmti mér. Ég veit hvað fólk á mínum aldri er að gera; ég held að það væri lygi að láta eins og mér finnist ekki gaman að þessu öllu.
– Cara Delvingne, aðspurð um kynhneigð sína
Cara hefur sterkar skoðanir á samskiptamiðlum, en hún er ötul við að deila hugrenningum sínum, brotum úr daglegu lífi og hefur eina 1.68 milljón fylgjendur á Twitter og ótrúlegt nokk; á Instagram er Cara Delvingne með litla 5.6 milljónir fylgjenda.
Mér finnst alveg ótrúlegt að engin ofurfyrirsæta hafi notað samskiptamiðla í sama mæli og ég fram til þessa dags. En það er góð tilfinning að rjúfa þann þagnarmúr, því fyrirsætur eiga ekki bara að vera séðar – þær hafa rödd og eiga að hljóta áheyrn líka.
Cara Delvingne, um mátt samskiptamiðla
Blaðamaður virðist sem heillaður af frjálslegu fasi stúlkunnar sem hefur sigrað samskiptamiðla, er óhrædd við að umfaðma ást sína á fallegum konum og er svo örmagna þegar viðtalið hefst að hún krefst þess að fá að liggja uppi í rúmi meðan á stendur. Enda nýkomin úr fimm daga gleðskap, en systir hennar gifti sig nýverið í Marakesh og fagnaðarlátum veislugesta ætlaði aldrei að linna.
Cara segist handtöskufíkill og að hún hafi tengst sinni fyrstu hátískutösku svo sterkum böndum að hún hafi gengið stolt um með töskuna þar til hún bókstaflega gliðnaði í sundur. Samstarfið við Mulberry sé því draumur sem varð að veruleika og að henni hafi þótt afar mikilvægt að vera virk og sjáanleg á öllum stigum hönnunar og framleiðslu.
…. því ef ég ætla að leggja nafn mitt við eitthvað og verð gagnrýnd fyrir vikið, þá vil ég í það minnsta vita að ég hafi veitt mitt persónulega samþykki fyrir útkomunni.
Cara Delvingne um samstarfið við Mulberry
Fyrirsætuferill hinnar 21 árs gömlu Cara hefur verið stormasamur og ótrúlega erilsamur, en á einungis fjórum árum hefur Cara verið andlit Asos, DKNY, Lagerfeld, Burberry og ótal annarra þekktra hönnuða. Hún hefur prýtt einar þrjár forsíður breska Vogue og hefur einu sinni hlotið hin eftirsóttu Model Of The Year verðlaun.
Ég skildi aldrei hér áður hvað fólk meinti þegar það vitnaði í hvirfilbyl, ég vissi aldrei hvað það þýddi. En svo var mér kastað inn í auga stormsins og þá lærðist mér hvað fólk meinti í raun. Þetta er klikkun. Það er svo mikið áreiti og svo margir valmöguleikar að það getur verið erfitt að bremsa sig af og segja: Er ég SÁTT við þetta? Er ég hamingjusöm?
Forvitnilegt viðtalið sem ber heitið In Bed with Cara Delvingne má lesa í heild sinni á vef Telegraph: Smellið HÉR
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.