Hún er 84 ára að aldri og er enn titluð ein af fremstu hátískufyrirsætum heims. Carmen Dell’Orefice var einungis 14 ára að aldri þegar hún sat fyrir hjá sjálfum Salvador Dali í Dior svítu hins margrómaða St. Regis hótels sem staðsett er á Manhattan og hefur verið önnum kafin allar götur síðan.
Nýverið sveif Carmen aftur, heilum sjötíu árum seinna, inn í sömu svítuna og sat fyrir hjá David Downtown sem, fyrir hátískuritið Vanity Fair skissaði upp glæsikvendið og ritaði textabrot um reynsluna.
Magnþrungin kona með stórbrotið líf að baki; Carmen hefur lagt þrjú hjónabönd að baki sem öll mislukkuðust, hún missti fjórða ástmann sinn á sviplegan máta og hefur tvisvar sinnum farið gegnum gjaldþrot.
Hún á eina dóttur sem er orðin sextug í dag og annan stjúpson sem stendur á sjötugu. Fyrir um ári síðan undirgekkst hún tvöfalda hnéaðgerð sem var stór og viðamikil í eðli sínu en hún lætur ekkert af undansögðu stoppa sig.
… þetta er kallað að lifa.
Gullfalleg – jafnvel í hárri elli – á Carmen góðum genum, flugbeittu skopskyni og járnvilja að þakka velgengni sína og ótrúlegan frama sem teygir sig yfir sjö áratugi og er hvergi nær af baki dottin. Hún er af ungverskum og ítölskum ættum, en ólst upp í Bandaríkjunum og á enn íbúð á Manhattan, Park Avenue, nánar tiltekið.
Fjölmiðlar keppast enn um að fjalla um konuna sem virðist hafa sigrað tímann; Carmen hefur undirgengist lýtaaðgerðir og viðurkennir slíkt fúslega en sú óumflýjanlega staðreynd fellur þó í skuggann fyrir þróttmikilli framkomu hennar, virðuleika og meðfæddri tign.
Aðspurð í viðtali við Huffington Post fyrir skemmstu sagðist Carmen enn vera að ná tökum á fyrirsætuhlutverkinu en að ekkert væri meira gefandi í starfinu en að upplifa augnablikið þegar ljósmyndarinn smellti af og hin fullkomna ljósmynd væri komin á filmu.
Sjálf segir hún ferilinn síður en svo að baki og að hún sé enn að leggja á ráðin um hvaða verkefni hún kjósi að taka að sér á næstu tveimur áratugum, eða allt þar til hún verður hundrað ára gömul. „EF ég dey” hefur hún látið eftir sér hafa, „verður það í pinnahælum.”
Magnaður og þróttmikill persónuleiki sem í gjörðum hefur fyrir löngu sýnt fram á að aldur þarf ekki að vera nokkur fyrirstaða í lífi kvenna – nema þær láti af lífsviljanum sjálfar. Hér má sjá umfjöllun Vanity Fair um stúlkuna sem Salvador Dali skissaði í Dior svítu St. Regis og sneri aftur einum sjötíu árum seinna til að fullkomna verkið.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.