Daðrað og duflað í útlandinu: Íslendingurinn ég!

Já já. Það er pínu spes að kasta sér út í iðu norskrar stefnumótamenningar. Ég var dálítið rög í byrjun. Hér tala allir norsku nefnilega og ég ekkert ægilega sleip í málinu. Þess utan sýnist mér sem flestir norskir karlmenn eigi gönguskíði, leggi gífurlega áherslu á útivist og vilji fyrir alla muni kynnast konu sem þrammar glaðbeitt upp á fjöll um helgar, þurrkar hordropa hress og kát af nefbroddinum og hlær dillandi hlátri með brúnost og hrökkbrauð í hendi.

Ég varð pínu hugsi þegar þetta rann allt upp fyrir mér:

Hér ytra tíðkast að vera á stefnumótasíðum. Allir svo uppteknir nefnilega. Fólk má ekkert vera að þessu barflandri um helgar. Tinder. Sukker. Og guð má vita hvað. Hér veður allt í stefnumótasíðum. Flestir notendur vaða fram með prófílmynd og greina frá starfsheiti við fyrstu kynni. Dálitlu máli skiptir HVAR viðkomandi býr og svo einnig að báðir séu með eigin fjárhag á hreinu. Ekki að ég viti af hverju. En þetta er sumsé oft viðkvæðið. Konur skuli halda um sitt bókhald sjálfar og fyrir alla muni taka seðlaveskið með á stefnumót.

Ég var ægilega hissa í byrjun. En svo vandist þetta allt saman. Ég borga fyrir mig.  

Einu sinni tók ég til að mynda lestina hnípin heim á miðnætti. Karlmennið sem bauð mér í kokteilboðið var nefnilega orðinn blindfullur og mátti ekkert vera að því að fylgja mér heim. Að vísu var bara um vin að ræða. En þegar klukkan var farin að slaga í tólf, var kunninginn kominn á dansgólfið með litháenskri tannlæknaklinku sem brosti sínu blíðasta í bleikum kjól og út staulaðist ég – hálfblind í rökkrinu – með strætómiða í hönd.

Bæ … ég er þá bara farin heim.

Kannski þetta sé einmitt ástæða þess að ég er enn einhleyp. Kann ekki alveg þetta stefnumótalingó og verð ýmist alltof einlæg (og ég meina … ALLTOF einlæg) í fyrstu – eða hegða mér hreinlega eins og póstnúmer mitt sé ríkisleyndarmál sem mér er ómögulegt að ræða.

Reyndi að útskýra þetta fyrir ágætis manni um daginn. Sem vissi eiginlega ekki hvernig hann átti að höndla mig. Íslendinginn sem rak upp hrossahlátur og reitti af sér dónabrandara. Á ensku. Fyrir utan barnaskóla. Um miðjan dag. Stundum, krakkar, er mér hreinlega ekki viðbjargandi.

Þurfti að senda manninum afsökunarbeiðni á Facebook:

Já, nei nei … ég er íslensk, þú skilur. Við erum svo framhleypin þjóð.

Svo hló ég í einrúmi. Skrifaði allt á eigið þjóðerni. Hann hefur ekki enn svarað mér. Samt eru liðnar tvær vikur.

Mér þykir engu að síður ægilega gaman að vera einhleyp. Ég reyndi við norsku stefnumótasíðurnar hér um árið, en gafst fljótlega upp á að reyna að stauta mig gegnum Google Translate og ekki var ég betri í þýðingunni þegar kom að merkingu orða. Misskildi þýðan daðurblæ norsku sjarmöranna og hélt að karlmenn sem stigu blíðlega í vænginn við mig væru að klæmast. Hvernig á maður eiginlega að skilja hvenær útlendingum er alvara eða leikur í hug? Þetta er allt saman of flókið fyrir mig, íslenska og miðaldra konuna!

Ég er með Instagram! Er það ekki bara nóg?

Kannski krakkar. þarf ég að skerpa á stefnumótasiðunum sjálf. Ég velti því stundum fyrir mér. Af og til les ég um nauðsyn þess að fríska upp á stefnumótamenninguna. Hversu miklir klaufar strákarnir geta nú verið þegar kemur að því að stíga í vænginn við konur. Þá brosi ég og velti vöngum yfir því hvort ekki megi heimfæra helming sannleikans upp á hitt kynið.

Svei mér þá, stelpur. Ég veit ekki með ykkur. En ég er óttalegur klaufi sjálf. 

SHARE