Við fengu þessa frásögn móður fíkils senda á email-ið okkar. Þetta er reynsla móður sem á son sem er fíkill:
Sonurinn hafði verið fíkill í mörg ár, sprautufíkill í rúm 10 ár, hann notar læknadóp mikð og margt fleira, hann segist ekki nota morfín eða morfínskyld lyf… sem svo margir eru að deyja af.. en hversu lengi stenst það… Móðirin er alltaf hrædd við að svara í símann þegar hann er í neyslu, hún býst alltaf við því versta og það veldur henni kvíða, miklum kvíða og þannig hefur það verið í nærri tvo áratugi…
Dagbók móður
Föstudagur
Hún hafði lofað að skutla elsta syni sínum í meðferð þennan morguninn, hann hafði verið í neyslu í nokkrar vikur eftir að hafa verið edrú í 4 mánuði en það var algjört met hjá honum. Hann reynir þó og fer reglulega í meðferð, það er ansi mikið farið að sjá á manneskju eftir öll þessi ár sem að sonurinn hafði verið í neyslu og tekur andlega á, bæði á hann og fjölskylduna.
Þennan dag átti systir hans afmæli og móðirin hlakkaði til að geta faðmað hana í tilefni dagsins, já gleði og sorg rekast oft á, dóttirin og sonurinn höfðu alltaf verið svo náin enda tæp tvö ár á milli þeirra. Það er jafn erfitt fyrir hana að upplifa bróður sinn í þessu ástandi, hún hefur reynst honum vel og því miður hefur hans neysla markað líf hennar eins og annarra í fjölskyldunni.
Móðirin hugsaði tilbaka þegar hann var lítill og saklaus og lífið svo átakalaust og skemmtilegt. Hann var svo fallegur með ljósa lokka og brúnu augu sín sem engin gat staðist. Hann sem var alltaf svo skemmtilegt barn, hún saknar góðu stundanna og spyr sig stundum „af hverju hann?“, „af hverju gat ég, móðirin, ekki fengið ólæknandi sjúkdóm fyrst að almættið ákvað að refsa mér?“.
En svona hugsanir þjóta stundum um huga móðurinnar þar til hún man að hún á þrjú önnur börn og eiginmann sem þurfa á henni að halda og hún þarf að vera sterk fyrir þau og ekki síst fyrir sjálfa sig.”
Þennan morgun sat hún með honum í móttökusalnum og ekki í fyrsta skipti, hann hafði verið í þessari óreglu í nærri tvo áratugi eða síðan að hann var 17 ára og því nokkur skipti sem að þessi meðferðarstofnun hafði verið heimsótt.
Hún sat og horfði á fólkið sem beið, örvæntingin skein úr augum þeirra sem og aðstandenda. Ung falleg stúlka sat grátandi við hlið eldri systur sinnar sem reyndi að hugga hana, sú yngri var að fara inn og ekki í fyrsta skipti sagði systirin. Nokkrir góðkunningjar sonarins úr meðferðum voru þarna á leið í meðferð enn og aftur eins og hann. Þangað kom líka hress gaur á leið í meðferð og reyndi að lífga upp á andrúmsloftið með gríni en kærustunni leist ekkert á það og reyndi að sussa á hann enda fáir í stuði þarna inni.
Loksins var nafn sonarins kallað upp og móðirin fór með honum inn til ráðgjafans. Ráðgjafinn þekkti soninn að sjálfsögðu vel þar sem að innlagnir hans standa á tugum síðastliðinn 18 ár. Sonurinn gat ekki setið kyrr, hann var allur á iði og krepptist allur saman, það var hrikalegt að horfa upp á þetta en efnin sem hann hafði sprautað sig með gerðu hann svo rosalega spastískan, ráðgjafinn nefndi það og sonurinn sagði honum hvað hann hafði notað.
Ráðgjafinn spurði soninn hvers vegna hann vildi koma í meðferð og sonurinn sagðist ekki vilja þetta dóp, hann hataði það og vildi gera allt til þess að komast í meðferð. Hann hataði þetta svo mikið en hann fíknin væri bara of sterk, þetta væri ekkert skemmtilegt því hann væri yfirleitt einn lokaður inni í herbergi að sprauta sig. Það væri “djammið” hans og þetta væri ógeðslegt og hann væri alveg að gefast upp á þessu enda eru 18 ár langur tími í neyslu og vonin um að verða varanlega edrú færi dvínandi.
Ráðgjafinn sagði honum að hann kæmist ekki inn þennan daginn og sonurinn brást í grát, hann gæti ekki meira og yrði að komast í meðferð. Hann myndi sofa á gólfinu, hann myndi gera allt og ráðgjafinn fór og athugaði hvort að hann gæti tekið hann inn í neyð en nei það var útilokað, allt pakkað. Hann gaf honum þó dagsetningu og að hann væri heppinn því biðlistinn væri langur, mjög langur en sonurinn er í það slæmu ástandi meðal annars með slæma sýkingu svo að þeir ætla að taka hann inn eftir nokkra daga.
Móðirin og sonurinn gengu álút út frá ráðgjafanum, en þó vongóð þar sem að sonurinn fékk dagsetningu á innlögn. En gengur það upp? Tekst syninum að komast þangað á réttum tíma, það er hætta á að neyslan taki yfirhöndina um helgina og hann viti hvorki af stað né stund, það er hætta á því en móðirin verður að vona það besta.
“Móðirin rifjar upp í huganum þau skipti sem hún hefur verið hrædd um hann, hrædd við að svara í símann út af honum, hrædd um að sjá hann aldrei aftur á lífi. Hún hefur setið yfir honum í fráhvarfi oftar en einu sinni, því hann hafði ekki komist í meðferð, ástandið hefur verið hrikalegt og móðirin þurft að vaka yfir honum dag og nótt. Þegar að hann fór að þurfa meðferð eða fá einhverja hjálp, var hann orðinn “fullorðinn” eða 18/19 ára og þá var orðið erfitt að fá hjálp og aðstandendur gjörsamlega ráðþrota. Að fjölskyldur þurfi að standa í þessari baráttu, þessu vonleysi er fáránlegt, móðirin hefur oft verið úrkula vonar um að ástandið á syninum muni lagast … þetta versnar bara og árin orðin ansi mörg….og móðirin er orðin þreytt, svo þreytt… “
Móðirin fór heim með kvíðahnút og hjartasár, því það er hræðilegt að horfa upp á barnið sitt sama hversu gamalt það er í þessu ástandi, það er þyngra en tárum taki.
Mánudagur
Móðirin fór að ná í soninn og skutlaði honum í meðferð. Hann hafði komist í gegnum helgina og var staðráðinn í því að fara í meðferð, hann var tilbúinn til þess að takast á við djöflana og skora þá á hólm. Hún vonar það besta og vonar að þessi meðferð verði til þess að hann nái bata. Algjörum bata! En leiðin er löng og ströng og vonleysið fyllir hjarta hennar því í þessum sporum hafa þau staðið í ansi oft og vonin dvínar við hvert fall…..
“Fjölskyldur verða sjúkar með, meðvirkar heitir það víst. Eitt sinn sagði lögregluþjónn við hana að þetta fólk væri eins og krabbamein á fjölskyldum og móðirin skilur það núna og viðurkennir að þannig hafa þau verið og eru enn en þau eru að reyna að brjótast úr meðvirkninni en það er erfitt, miklu erfiðara en hún gerði sér grein fyrir. Heilsan fer hjá fjölskyldumeðlimum, bæði andleg og líkamleg og fólk verður óvinnufært, móðirin hefur og er svo sannarlega á þeim stað í dag. Heilsulaus. Áföll ofan í áföll sem tengjast börnunum okkar eru eitt það versta sem foreldrar upplifa, algjör heilsuþjófur.
Móðirin vonar að þú lesandi góður lendir aldrei í þessu. Sonurinn er af góðu heimili, engin óregla þar, allir geta lent í þessu, fíkn spyr ekkert um stétt né stöðu….”
“Hversu sárt er upp á þig að horfa
í helvíti sökkva og geta ei þér forðað,
sjá brosið þitt deyja og lífsviljann dvína
og sorgina sem dvelur í hjartanu hlýja.
Hversu sárt …
…er ei hægt að orða.”
Mamma?