Dagur elskenda er runninn upp; 14 febrúar – sveipaður rósrauðum ljóma og fögrum loforðum. Dagurinn sjálfur er kenndur við dýrlinginn Valentínus og á rætur að rekja til árdaga kristni. En hver var Valentínus og hvers vegna varð 14 febrúar fyrir valinu?
Heilagur Valentínus gifti elskendur á laun í trássi við Kládíus keisara
Til eru nokkrar kenningar um Valentínus sjálfan, sem var prestur og þjónaði til altaris á þriðju öld eftir Kristburð. Sagan hermir að Valentínus, sem þjónaði til altaris í Róm, hafi brugðist Kládíus keisara, sem sagði einhleypa menn hæfari til hernaðar en hjónabands. Kládíus keisari gekk svo langt að banna ungum karlmönnum með lögum að ganga í hjónaband. Þetta, að mati Kládíusar, dró úr brottfalli hermanna en Valentínus, sem ekki var á sama máli og keisari, leit svo á að ungmenni Rómarborgar væru beitt grimmilegu óréttlæti.
Þannig fór hann á móti orðum Kládíusar, sem voru lög og framkvæmdi ófáar hjónavígslur ungra elskenda á laun í yfirgefinni kirkju. Valentínus framkvæmdi fjölmargar hjónavígslur á laun áður en upp komst um svikin við Kládíus keisara, en fyrir launmakk sitt galt Valentínus að lokum fyrir með lífi sínu, þar sem Kládíus fyrirskipaði aftöku hans samstundis.
Valentínus varð ástfangin af dóttur böðulsins og ritaði stúlkunni ástarbréf
Valentínus var þá ekki ónæmur fyrir töfrum ástarinnar sjálfur. Þannig hermir sagan svo að Valentínus hafi sjálfur sent fyrsta Valentínusarkortið. Skömmu eftir að Valentínus var hnepptur í varðhald fyrir að hafa framkvæmd hjónavígslur i trássi við Kládíus keisara, varð Valentínus sem hugfanginn af ungri stúlku – dóttur böðulsins – sem heimsótti prestinn meðan hann beið þess að verða tekinn af lífi.
Örfáum dögum áður en Valentínus var tekinn af lífi fyrir landráð, skrifaði hann stúlkunni örstutt bréf og undirritaði með orðunum „Þinn einlægur – Valentínus“ en sú kveðja er enn við lýði á degi elskenda og af þeim orðum er bandaríska gælukveðjan: „Be My Valentine” dregin.
Dag elskenda ber upp á aftökudægri heilags Valentínusar
Dag elskenda ber upp á dánardægri Valentínusar, sem var tekinn af lífi þann 14 febrúar 270 e. Kr. en presturinn hugrakki var líflátinn fyrir að hafa framkvæmt fjölmargar ólöglegar hjónavígslur í trássi við skipanir Kládíusar keisara; fyrir að rísa upp gegn kúgun auðvaldsins og brjóta á bak aftur harðræði og heraga með kærleikann að vopni.
Aftökudag Valentínusar, sem var tekinn í dýrlingatölu löngu eftir andlát sitt, halda elskendur enn upp á um gjörvallan heim. Tákn hjartans, sem er einnig aðalsmerki Valentínusardags, er samkvæmt ævafornum kaþólskum kenningum tákn sálarinnar og holdgervingur allra mannlegra tilfinninga.
Valentínus gaf líf sitt svo elskendur mættu njótast og aldrei skilja
Goðsögnin um heilagan Valentínus er sveipuð ægifegurð, hugrekki og rómantískum ljóma, en er þó langt frá því að vera einföld í eðli sinu. Heilagur Valentínus var þegar orðinn píslarvottur áður en að aftöku hans kom og lagði þannig eigið líf að veði svo elskendur mættu njótast og aldrei skilja að nýju. Að öllum líkindum gerði Valentínus sér enga grein fyrir því að afrek þau eru hann framdi í nafni kærleika ættu eftir að verða ástföngnum innblástur um ókomna tíð, né heldur að dánardægur hans yrði hafið til vegs og virðingar.
Að því sögðu óskar ritstjórn HÚN lesendum innilega til hamingju með dag elskenda; dánardægur heilags Valentínusar.
Tengdar greinar:
Kynlíf: Kryddaðu það örlítið á degi elskenda – 10 hugmyndir
Strákar troða sér í sexí undirföt fyrir Valentínusardaginn
Ástfanginn ungur drengur lýsir allra fyrsta kossinum!
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.