Hún er alveg viss um að þetta taki bara 21 dag. Beyoncé. Gaf út þá yfirlýsingu fyrir skömmu síðan og máli sínu til stuðnings setti hún matarkúr á markað. Ægilega dýran og gersneyddan öllum aukaefnum án efa. Heimsendingarþjónustu (held ég) sem fínu frúrnar eiga eftir að mæla út og mana hverja aðra upp í að prófa.
Sennilega kemur svo kúrinn bráðlega á Evrópumarkað og allt verður vitlaust. Allir fara á Beyoncé kúrinn – sem samanstendur af glúten, laktósa, soya og guð má vita hverju-fríu fæði sem spannar öll nauðsynleg næringarefni í heilan 21 dag. Þegar kúrinn er á enda kominn – er tilgáta stúlkunnar sú að viðkomandi hafi loks áttaði sig á mikilvægi heilbrigðra venja.
Beyoncé fann þá heldur ekki upp hjólið. Það er löngu vitað að líkaminn lærir að sættast á nýjar venjur ef reglu er haldið óslitið í heilar þrjár vikur. Þetta veit ég því ég las kenninguna í tímaritinu ÚRVAL meðan ég var enn lítið barn. Beyoncé er því fremur að fara með vel þekktar staðreyndir – eitthvað sem ég hef haft bak við eyrað frá blautum barnsaldri.
En hún ýtti við mér þegar hún setti matarkúrinn á markað fyrir skemmstu.
Hefði mig nú bara rennt í grun, enn barn að aldri og óravegu í burtu frá fyrstu sígarettunni sem ég tók einhvern tímann á miðjum unglingsaldri, að kenningin sem ég las í tímaritinu ÚRVAL forðum daga yrði einhvern tímann sjálfri Beyoncé innblástur og seinna meir sjálfri mér þegar ég drap í síðustu sígarettunni fyrir sex dögum síðan.
Það er erfitt að hætta. Því verður ekki neitað. Hver hefur sitt lag og þannig spila ég óhemju magn af R & B tónlist þessa dagana. Smjatta daglangt á tyggjó. Og treð í mig sænsku snusi eins og enginn sé morgundagurinn. Eitthvað hjálparmeðal verð ég að hafa. Við Beyoncé getum ekki bara kastað af okkur kápunni, hlaupið öskrandi inn í fráhvarfatímabilið og svitnað af nikótínskorti, hönd í hönd meðan við förum með heimsþekkta sönglagatexta á vinnutíma.
Elskurnar mínar, það er alveg skelfilega erfitt að hætta. Enn þyngra að líta ferlið alvarlegum augum og bannað með öllu að svindla meðan á ferðalaginu gegnum fyrstu 21 dagana stendur. Þegar hér er komið sögu hafa sennilega flestir áttað sig á því að ég er hvorki á glúten, soya, laktósa- né sykurlausu fæði. Ég tók einfaldlega kenningu Beyoncé, – hugmyndina að kúrnum – og gerði að mínu persónulega R & B flæði. Gegnum þá þrautagöngu sem nikótíkfráhvörf í raun eru.
Ég verð að ferðast gegnum fyrstu 21 sólarhringana með húmorinn að vopni. Annars kemst ég aldrei á leiðarenda. Þá sigrar Beyoncé, með sinn rándýra matarkúr og seðlaveskið veinar undan nikótínsveðjunni. Svo ég spila allt sem ég kemst yfir. Beyoncé áttunda áratugarins. Beyoncé á Grammy. Reiðu Beyoncé sem kastar aftur hárinu og glöðu Beyoncé sem elskar alla.
Allt nema aðra sígarettu. Meiri Beyoncé. Hvað sem er.
Ég hef enga hugmynd um hvað ég er að segja. Ég er umlukin niktótínfráhvörfum, úttroðin af sænsku snusi og svo máttvana eftir síðustu danssveifluna sem við tókum rétt í þessu, ég og Beyoncé – að ég má varla vera að því að ljúka pistlinum. En það er allt í lagi líka – ég er á degi sex og Beyoncé kúrinn gengur því feiknarlega vel.
Elsku gullin mín. Það er alger óþarfi að ferðast gegnum ferlið með andlega dýpt að vopni. Hástemmdar yfirlýsingar og þanda nasavængi. Best er að smella tónlist á fóninn, taka nokkur létt spor og loka augunum þegar besti kaflinn kemur. Guð veit að ég hef dillað mjöðmunum óheyrilega undanfarna daga. Gerið svo bara grín að mér. Við sjáum hver hlær mest þegar þrjár vikur eru á enda.
Áfram Beyoncé!
Tengdar greinar:
Sinnir reykingafólk foreldrahlutverkinu verr en hinir sem ekki reykja?
8 algeng mistök sem konur gera sem bitna á heilsunni
Matur sem er góður fyrir húðina
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.