Skilyrðislaus ástin skín úr brostnum augum nýbakaðra foreldranna sem sjá má hér á meðfylgjandi myndum. Nístandi sorgin og kærleikurinn sem haldast í hendur meðan allra síðustu augnablikin líða hjá með leifturhraða – síðasti andardráttur nýfæddra barna sem umvafin örmum foreldra sinna, kveðja heiminn skömmu eftir komu þeirra í heiminn.
Ljósmyndirnar sem sjá má hér að neðan eru allar teknar af samtökunum Now I Lay Me Down To Sleep sem hafa það markmið að leiðarljósi að fanga minningarleiftur foreldra af deyjandi og / eða nýlátnum börnum sínum, en á vegum samtakanna starfa ljósmyndarar sem sérhæfa sig í tökum með niðurbrotnum foreldrum og dauðvona börnum þeirra á sjúkrahúsum viðsvegar um heiminn.
Samtökin eru bandarísk að uppruna og voru stofnsett fyrir einum tíu árum síðan en þjónustan teygir sig hins vegar yfir ein 40 lönd og eru sjálfboðaliðarnir orðnir hátt í 1700 talsins. Upplýsingar um sjálfa þjónustuna má finna á vefsíðu samtakanna, en þar stendur m.a.:
Markmið okkar er að bjóða syrgjandi foreldrum upp á minningarmyndir af barni sínu án tilfallandi kostnaðar við faglega ljósmyndatöku.
Það er ekki allt; samtökin bjóða einnig upp á fræðslu fyrir lærða ljósmyndara svo þeim verði kleift að veita þjónustu sem felur í sér gullfallegar minningarljósmyndir fyrir fjölskyldur sem verða fyrir þeirri ólýsanlegu sog að missa nýfætt barn í faðm dauðans.
Á vefsíðu samtakanna má finna þessi orð:
Við lítum svo á að ljósmyndirnar þjóni mikilvægu hlutverki í heilunarferli fjölskyldunnar; að með þessu móti sé minning barnsins heiðruð.
Sjálft nafn samtakanna – Now I Lay Me Down To Sleep – dregur nafn sitt af þekktri barnabæn, en samtökin bjóða einnig fjölskyldum barna sem eru fædd andvana upp á þjónustuna. Enginn íslenskur ljósmyndari er skráður á vefsíðu samtakanna, en lærðir ljósmyndarar um allan heim geta þó gerst sjálfboðaliðar á vegum samtakanna.
Hér að neðan má sjá örfáar ljósmyndir sem sýna hvers ástin er megnug, en þetta eru síðustu augnablik syrgjandi foreldra með deyjandi börnum sínum sem fönguð hafa verið á filmu og gerð ódauðleg; til heiðurs minningu barns.
Rett er að benda á að vefsíðu samtakanna og allar upplýsingar um þjónustuna má finna HÊR
Tengdar greinar:
Dagurinn sem ég hætti að segja ,,drífðu þig“
Þegar gleðin breyttist í sorg
Að missa Walter, fósturlát á 19. viku – Við vörum við myndum
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.