Ég er hrifin af Daim. Mjög hrifin. Ég er líka hrifin af skyri. Sérstaklega með rjóma. Æ, ég er að ljúga. Ég er ekkert hrifin af skyri ef það er ekki með rjóma. Svo er það karamellan. Hvers kyns karamella fær hjarta mitt til þess að slá ótt og títt. Gæti baðað mig í karamellu. Bókstaflega. Alla daga.
Hvað gerir kona þá? Hún hrærir þessu öllu saman í eina skál. Og borðar þangað til henni verður illt. Tekur sér pásu. Leyfir maganum að jafna sig. Og hefst svo handa á nýjan leik. Klárar úr skálinni. Sleikir hana. Og endar svo í rökræðum við sjálfa sig um hvort hún eigi að skella í aðra blöndu.
Það fær ekki að fylgja sögunni hvernig þær rökræður enduðu.
Þessi kaka sko – þú verður að prófa. Fáránlega einföld og bráðnar í munni. Hún bráðnar sennilega ekki jafn hratt af bumbunni. En það er allt annað mál. Seinni tíma vandamál. Tökumst á við það eftir páska. Eða næstu áramót.
Daimskyrterta með karamellusósu
5 stykki tvöföld Daim
2 msk brætt smjör
1 stór dós vanilluskyr frá KEA
500 ml rjómi
1 vanillustöng
karamellusósa (ég keypti tilbúna en að sjálfsögðu má búa til sína eigin)
Spænum Daim-ið alveg í öreindir. Eitt stykki matvinnsluvél er afar hentug í slíkar framkvæmdir.
Færum fínmalað súkkulaðið í góða skál. Smökkum það örlítið til.
Hellum smjörinu saman við. Hrærum dálítið. Smökkum til.
Þjöppum svo smjörkenndri súkkulaðiblöndunni vel og vandlega í botninn á skálinni. Sleikjum sleifina sem við notum til þess að þjappa.
Þeytum rjómann og blöndum skyrinu varlega saman við. Ég þeyti skyrið að vísu alltaf aðeins líka. Bara smekksatriði. Skafið svo innan úr einni vanillustöng og hrærið út í blönduna. Smökkum aðeins. 1-2 skeiðar. Eða þrjár.
Smyrjum rjóma- og skyrblöndunni ofan á súkkulaðið.
Ég keypti karamellusósu. Það eru til allskonar tegundir. Þessi er dálítið þykk þannig að ég hitaði hana aðeins og bætti við 2 matskeiðum af rjóma.
Vænu magni af karamellu smurt yfir herlegheitin. Skreytt. Og snætt.
Ég skreytti mína með blæjuberjum og glimmeri. Af því að það er allt betra með glimmeri. Ætu glimmeri nota bene.
Það tekur enga stund að hræra í eina svona dýrð. Og ennþá styttri tíma að slátra heilli skál. Úff. Hnossgæti par exelans.
Gleðilega páska!
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.