Þetta hnossgæti kemur af sælkerablogginu hennar Tinnu Bjargar. Það er alveg tilvalið að smella í eina svona í dag – við erum mörg hver í fríi og þá má nú alveg gera dálítið vel við sig, er það ekki?
Ljúffeng myntuskyrkaka
Botn:
1 pakki Bastogne Duo kex frá Lu
100 gr smjör
Fylling:
500 gr hreint skyr
1 vanillustöng
1 dl flórsykur
250 ml þeyttur rjómi
4 blöð matarlím
4 msk rjómi
100 gr suðusúkkulaði
lauf af 6 myntustilkum
Krem:
50 gr Pipp með piparmyntu
3 msk rjómi
Myljið kexið í matvinnsluvél eða mortéli, bræðið smjör og blandið saman í skál.
Þrýstið blöndunni í botninn á smelluformi og upp með hliðunum. Kælið í ísskáp á meðan fyllingin er gerð.
- Setjið skyrið í skál, skerið vanillustöngina endilanga og skafið fræin úr henni með hnífsoddi. Þeytið vanillufræjum saman við skyrið og bætið flórsykri við. Ég kýs að nota vanillustangir eða -dropa því mér þykir vanillusykurinn svo bragðlítill.
- Blandið þeyttum rjóma varlega saman við skyrið.
- Leggið matarlímsblöð í skál með vatni þar til þau eru orðin mjúk. Hellið svo vatninu af þeim og setjið í pott ásamt 4 msk af rjóma. Bræðið saman við vægan hita og passið að matarlímsblandan brenni ekki.
- Kælið þar til blandan er orðin volg og hellið svo út í skyrfyllinguna í mjórri bunu, hrærið stanslaust á meðan.
- Saxið súkkulaðið og myntuna smátt og blandið saman við.
- Smyrjið fyllingunni á kexbotninn í smelluforminu og kælið þar til kakan er orðin stíf.
- Bræðið Pipp saman við 3 msk af rjóma, kælið og hellið yfir kökuna. Passið að kremið sé ekki svo volgt að það bræði fyllinguna.
- Ég ber kökuna fram á botninum úr forminu en hægt er að klæða hann með smjörpappír, sem sniðinn hefur verið ofan í formið, til að auðvelda að færa kökuna af botninum.
- Mér finnst kakan verða ferskari með hreinu skyri, vanillustöng og flórsykri en til að einfalda uppskriftina má nota tilbúið vanilluskyr.
Bakið þessa í dag og bjóðið í kaffi.
Gleðilegt sumar!
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.