Þessi ljúffenga uppskrift kemur af sælkerablogginu hennar Erlu Guðmunds. Ég hvet þig að sjálfsögðu til þess að fylgjast með Erlu á Facebook – það er hreinn gróði. Í kílóum talið. Hvílíkar sælkerauppskriftir alltaf hreint.
Sjá einnig: Ostakaka með Nóa kroppi og hindberjasósu – einföld og fljótleg
Oreo & Pipp ostakaka
Botn
1 og 1/2 Oreokexpakki
120-150 gr íslenskt smjör (við stofuhita)
- Skellið kexinu í matvinnsluvél og þegar það er klárt bætið þið við smjörinu. Ég setti 150 gr af smjöri en ég mæli með að byrja að setja ca. 120 gr og síðan bæta við ef ykkur finnst vanta upp á.
- Ég klippti síðan smjörpappír til að setja í botnin á kökuforminu, en ég notaði 24cm form til þess að auðvelt væri að losa oreobotnin úr forminu.
- Geymið þetta í kæli í ca. 1 & 1/2 klst og fjarlægið þá smjörpappírinn og setjið oreobotnin ofan í bert kökuformið.
Fylling
225 gr Philadelphia rjómaostur
250 ml rjómi (þeyttur)
1 tsk vanillusykur
2 tsk kakó
200 gr Pipp með piparmyntu
2 tappar piparmyntudropar
- Ég byrjaði á því að þeyta rjómann og setti hann til hliðar á meðan ég hrærði rjómaostinn. Blandaði rjómanum svo saman við rjómaostinn og bætti síðan við vanillusykrinum, kakóinu og piparmyntudropunum.
- Á meðan þetta blandaðist saman í hrærivélinni þá bræddi ég 100 gr Pipp með smá rjómaslettu út í, lét það kólna pínu og blandaði svo saman við fyllinguna. Mig langaði að hafa smá nammi í kökunni svo ég skar niður 100 gr Pipp, frekar smátt, og blandað saman við með sleikju. Það má sleppa því, en ég mæli hinsvegar með því að hafa það með.
- Þessu er svo skellt ofan á Oreobotnin og geymt í kæli í nokkrar klukkustundir, þar til kakan er orðin stíf og hægt er að losa hana úr forminu. Ég skreytti síðan með smá bræddum súkkulaðidropum, Pippi og jarðaberjum.
Sjá einnig: Sjúklega gómsæt ostakaka með Mars & Rice Krispies
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.