Hún er bara átta ára gömul, en Gabi Mann er fuglahvíslari af lífi og sál. Gabi Mann býr í Seattle, Bandarikjunum og fæðir krákur sem heimsækja bakgarðinn hennar og hefur gert síðan hún var aðeins fjögurra ára að aldri.
En það er ekki allt, því hún á í sérstöku sambandi við krákurnar, sem daglega færa henni litla mola að gjöf; slípuð glerbrot, bréfaklemmur, glysperlur og alls kyns smádót sem krákurnar leggja á jörðina svo Gabi geti tekið upp – áður en þær setjast að snæðingi.
.
Gabi heldur vel um allar gjafirnar sem krákurnar hafa fært henni í þakkarskyni
BBC greinir frá þessu einstaka vináttusambandi stúlkunnar við fuglana, en í viðtali við miðilinn segir Gabi einfaldlega:
Þetta er leið fuglana til að sýna mér hversu heitt þeir elska mig.
Allt hófst ævintýrið þegar Gabi var einungis fjögurra ára gömul og missti mola á jörðina þegar hún sat að snæðingi í bakgarðinum. Fuglarnir nörtuðu góðfúslega í molana, atvikið endurtók sig og fyrir tveimur árum síðan – eða þegar Gabi var sex ára gömul – fór hún að fæða krákurnar daglega með brauðmolum, hnetum og hundamat. Krákurnar komust strax á bragðið og þökkuðu litlu stúlkunni fyrir sig með glysperlum, lúnum glerbrotum og alls kyns smáhlutum sem eru vita verðlausir en hafa sérstaka merkingu í augum litlu stúlkunnar.
.
Krákurnar eru afar hændar að Gabi og eru óþreytandi við gjafaöflunina
Í umfjöllun BBC kemur einnig fram að fuglasérfræðingurinn John Marzluff segi ekki óþekkt að krákur bregðist gjarna við góðvild á þennan máta, en fuglarnir eru glysgjarnir með eindæmum og því hegðunarferlið ekki óþekkkt.
Það er enginn vafi á því að stúlkan hefur bein samskipti við fuglana. Þau skilja tákn og bendingar hvers annars.
Krákur eru að öllu jöfnu skarpir fuglar, félagslyndar og glettnar – en fuglarnir geta jafnvel borið kennsl á andlit manna. Því er ekki úr vegi að ætla að krákurnar hafi tekið ástfóstri við litlu stúlkuna sem færir þeim mat á hverjum degi og þiggur smágjafir frá dýrunum að launum.
.
Litla stúlkan heldur vel um ástleitnar gjafirnar og skrásetur hvern hlut
Dásamlegt í einfaldleika sínum og sýnir svo ekki verður um villst að dýrin eru næm á góðvild manna og eru fyllilega fær um að sýna kærleika á sinn einstaka máta. Hér má sjá Gabi fæða félagslyndu krákurnar í bakgarðinum:
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.