Hvað er hægt að gera sér til dundurs innandyra í sumarfríinu, þegar rigningin virðist ætla að vera allsráðandi, tjaldútilegur sem draumi líkast og buddan leyfir ekki landflótta?
Þá er upplagt að búa sér til gerviútilegu innan dyra í temmilegum hita og kósíheitum. Tjalda með krökkunum á stofugólfinu, sjóða egg á prímus og toppa þetta svo með því að búa til ilm á flösku sem ætti að nægja til þess að fá tilfinningu fyrir hlýjum og ferskum sumarvindum leika um íbúðina.
Uppskrift:
- 2 tsk hreinn vodki (mæli samt með að hann verði ekki notaður í annað en þessa uppskrift)
- 30 dropar af ilmkjarnaolíu eftir smekk t.d. lavender eða sítrónu.
- 11/2 bolli soðið vatn sem hefur verið kælt.
Aðferð:
- Finnið dáldið smart glerflöskur, helst sem hægt er að spreyja úr eða látið grillpinna úr tré ofan í flöskuna þá mun ilmurinn dreifast betur.
- Sótthreinsið flöskuna með því að sjóða í potti.
- Öllum hráefnum blandað saman.
- Munið að hrista fyrir hverja notkun.
Heimild:
www.casasugar.com
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.