Íbúðin sem við hjónin búum í, með börnum okkar, er í þriggja hæða blokk og er í nánast upprunalegu ástandi. Blokkin var byggð 1990 og eitthvað og er þess vegna pínulítið gamaldags, ef hægt er að nota það orð fyrir ekki eldri eign en þetta. Ekki misskilja, íbúðin er æði, stór og rúmgóð og á tveimur hæðum og nóg pláss fyrir alla. Það eru samt nokkrir hlutir sem okkur hefur langað að fara í en höfum ekki gert það, því jú, það er asskoti dýrt, eins og flest á eyjunni okkar fögru.
Ég hef ÞRÁÐ að fá nýja innréttingu í eldhúsið. Þegar við fluttum inn fékk ég hroll yfir eldhúsinu. Innréttingin var úr kirsuberjavið, brúnar flísar á veggnum milli skápa og borðplötu og grá/fjólublá yrjaðar flísar á gólfinu. Ég tók strax þá ákvörðun að mála yfir flísarnar á veggnum. Skrifaði einmitt litla grein um það hérna inni. Það var ómaksins virði og birti heilmikið yfir eldhúsinu. Málningin hefur haldist ótrúlega vel og alltaf glansandi fín og hvít. Auðvelt að þurrka af þeim og óhreinindi festast ekki á þeim.
Ég hef „verið á leiðinni“ að mála innréttinguna í eldhúsinu í langan tíma. Fólk hefur verið að draga svolítið úr mér og segja að það sé alltof mikil vinna, ég verði aldrei ánægð með útkomuna og svo framvegis. Þar sem ég er með sjálfgreinda mótþróaröskun, þá hvetur svona tal mig enn frekar til að gera það sem fólk „telur mig ekki ráða við“. Kannski er það vegna þess að ég á bara eldri bræður og þarf alltaf að sanna mig, að mér finnst, eða bara þrjóskan sem er að drepa mig. Veit ekki. Ég allavega tók af skarið og byrjaði á þessu eftir að hafa átt samtal við vin um þetta. Hann sagði við mig: „Þetta verður aldrei flott og þú munt aldrei klára þetta!“ Þar var eldurinn kviknaður hjá minni. Ég fór tveimur dögum seinna af stað, kíkti í Húsasmiðjuna og fékk ráðgjöf með hvaða efni ég þyrfti, hversu mikið og hvaða áhöld væri nauðsynlegt að hafa.
Ég viðurkenni það fúslega að þetta var meiri vinna en ég gerði mér grein fyrir í upphafi en hverrar mínútu virði.
Ég var með allt sem þurfti. Hreinsiefni, grunn, sparsl og sparslspaða, málningu, rúllur og pensla. Ég ákvað að byrja smátt. Tók fyrst litlu skúffurnar úr. Það var ekkert mál en svo kom að því að taka höldurnar af, sem voru auðvitað úr burstuðu stáli, sem var það allra heitasta á sínum tíma. Þær voru pikkfastar svo ég þurfti að finna góða aðferð til þess að ná þeim af. Ég hafði sett pappír á eldhúsborðið svo ég gæti unnið þetta þar og kom mér að verki.
Ég byrjaði á því að þrífa viðinn með þar til gerðu efni. Ég var með mjög gott vinnuljós, enda svartasta skammdegið í gangi og ekki mikil birta að berast að utan á þessum tíma. Auðvitað fór ég að sjá allar skemmdirnar í viðnum og far eftir höldurnar og allt það svo ég VARÐ að sjálfsögðu að sparsla í hverja eina mishæð sem ég sá.
Ég er með mjög mikla fullkomnunaráráttu og stundum geng ég aðeins of langt, en mig langaði bara að hafa þetta flott fyrst ég var að þessu á annað borð.
Ég er í fullri vinnu svo ég var ekkert á fullu alla daga, heldur tók ég smá skurk í þessu á hverju kvöldi. Þetta fór hægt af stað en þegar ég var komin með ákveðna „tækni“ við þetta, gekk þetta miklu hraðar.
Vinur minn bauðst til að lána mér juðara til að slípa niður sparslið og lakkið sem fyrir var á hurðunum, en þangað til hafði ég gert þetta í höndum. Þegar juðarinn var kominn í hús var þetta mun auðveldara. Ég fór með allt út á svalir og pússaði þar því ég nennti ekki að hafa allt í ryki innandyra á meðan á þessu stóð. Það gat oft verið kalt en ég lét mig hafa það, því ég á mjög erfitt með alla óreiðu.
Ég tók mig til eitt kvöldið og þreif allt og sparslaði að utan svo ég gæti bara tekið eitt og eitt niður til að pússa og grunna. Svo tók ég 1-3 hurðir af í einu, pússaði og grunnaði og fór svo að sofa. Daginn eftir tók ég næstu hurðar og málaði fyrstu hurðarnar eina umferð. Þannig gekk þetta koll af kolli. Gekk hægt en örugglega og þegar maður er búin/n með alla grunnvinnuna gengur þetta eins og vel smurð vél.
Með tímanum hafðist þetta allt saman og þegar eiginmaðurinn kom heim gekk þetta auðvitað helmingi hraðar og við mössuðum þetta saman. Við ákváðum fljótlega að gamli vaskurinn og borðplatan yrðu að fara og fjárfestum í nýjum vask, blöndunartækjum, höldum og borðplötu. Tókum líka niður risastóra háfinn fyrir ofan helluborðið.
Við erum komin með nýtt eldhús og yrjóttu flísarnar á gólfinu líta meira að segja betur út við þennan nýja lit. Það er með ólíkindum hvað hægt er að gera án þess að eyða mörghundruð þúsundum í það. Við erum algjörlega í skýjunum með „nýja“ eldhúsið og næstu verkefni eru komin á teikniborðið.
Hvernig gerði ég þetta? 1. Þreif hurðarnar mjög vel með Jotun Spesialvask. Það er gert til að þrífa fituna af svo málningin haldist betur á. 2. Sparslaði í allar holur og rispur með Jotun Sparkel. Það bíður svo í nokkra tíma. 3. Pússaði sparslið. Mæli með því að nota juðara. Notaði fínan sandpappír í lokin svo áferðin yrði falleg. 4. Grunnaði. Það bíður svo í nokkra tíma. 5. Pússaði það sem þurfti að pússa. Það þurfti þó ekki alltaf 6. Málaði með Lady Supreme Finish halvblank (40% gljái, hálfmatt). |
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.