Áttu unga dömu sem elskar hárspangir en þú hefur ekki hugmynd um hvernig er best að geyma þær? Jæja, þá getur þú sofið rólega hér eftir vegna þess að ég er með lausn sem er ódýr, auðveld og að finna akkurat rétta spöngina sem passar við þennan kjól verður leikur einn.
Það eina sem þú þarft er hólkur utan af einhverju (ég notaði hólk utan af kartöflustrám), lítil gardínustöng, litaspraybrúsi og auðvitað heitalímbyssuna (hvar væri ég án hennar?). Þú sprayjar hólkinn og finnur miðjuna á hvorum endanum. Þú gætir líka klætt hólkinn með einhverjum flottum pappír en ég væri hrædd um að spangirnar myndu rífa hann. Í miðjunni (á endunum) gerir þú gat sem er nógu stórt til að gardínustöngin komist í gegn. Svo þræðir þú hólkinn upp á stöngina og festir með heita líminu. Ef þú vilt þá máttu líka skreyta með borða, en það er ekki nauðsynlegt (mér fannst það bara svo sætt). Svo einfaldlega kemur þú þessu fyrir ofan í skúffu inni á baði eða inni í skáp og ráðar spöngunum uppá. Sko, ég sagði að þetta væri auðvelt :0)
Ég heiti Kristbjörg og ég er 2 barna móðir sem elskar föndur, að skapa með höndunum, að búa til eitthvað úr engu og að reyna að auðvelda mér lífið með því að skipuleggja, skipuleggja, skipuleggja.