Liðin eru mörg ár síðan ég kom höndum yfir hið víðfræga, ævaforna (að því er mér virðist) og dularfulla Edgar Cayce Lotion. Einu sinni var hægt að festa kaup á þessari undursamlega nærandi olíu í innlendum apótekum og gott ef framleiðslan fór ekki fram á Íslandi í ofanálag.
Ég lagði innihaldsefnin á minnið, stúderaði latnesk heitin af elju og fletti ofan af einfaldleika formúlunnar; samsetningin er svo einföld að ég trúði vart mínum eigin augum. Seinna meir var svo olían tekin af markaði einhverra hluta vegna, ég fluttist í kjölfarið erlendis og erfiðlega gekk að koma höndum yfir dýrðina.
Enginn virtist kannast við Edgar Cayce Lotion hvert sem ég sneri mér og á endanum gaf ég upp alla von.
Fyrir stuttu kom mér svo til hugar að leita fanga á vefnum – í þeirri einföldu von að einhvers staðar væri uppskriftina að finna. Og viti menn! Djúpt í iðrum veraldarvefsins gróf ég upp gamla síðu sem innihélt ekkert annað en formúluna góðu í réttum hlutföllum.
Vongóð á svip lagði ég leið mína í apótek í dag, spurðist feiminslega fyrir um Lanolin (ullarfitu) og gekk út með örlitla túpu af dýrðinni. Því næst lagði ég leið mína í matvöruverslunina og nældi mér í rósavatn (sem er selt hér ytra) og því næst jarðhnetu- og olivuolíu, sem ég læddi í innkaupapokann.
Þegar heim var komið lagði ég uppskriftina á borðið – dró upp desilítramálið, dauðhreinsuð ílát …. og blandaði mína fyrstu olíu.
Edgar Cayce Lotion
6 únsur (1.8 dl) – Hnetuolía
2 únsur (0.6 dl) – Olivuolía
2 únsur (0.6 dl) – Rósavatn
1 msk brætt Lanolin
Hellið öllum innihaldsefnum saman í dauðhreinsaða flösku með ágætum tappa, hristið vel saman og látið standa inni í kæli, þar sem blandan inniheldur engin rotvarnarefni og getur auðveldlega þránað við stofuhita. Kjörið er að bera olíuna á líkamann að loknu góðu baði þar sem hörundið hefur verið skrúbbað vandlega til að örva blóðstreymi húðarinnar og fjarlægja dauðar húðfrumur – en byrja skal á efri hluta likamans – andliti, hálsi og öxlum – þar næst handleggjum og að lokum ætti að nudda allan líkamann vel og vandlega upp úr nærandi olíublöndunni með löngum strokum en með þeim hætti eru vöðvarnir nuddaðir um leið.
Samkvæmt Cayce gamla ætti að bera blönduna á líkamann að minnsta kosti tvisvar í viku fyrir svefn – en blandan, sem er feit og nærandi – getur orkað sem djúpnærandi maski fyrir líkamann og viðhaldið teygjanleika húðarinnar.
Lesa má meira um Cayce gamla og formúluna góðu HÉR
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.