Undanfarnar vikur hefur spennan verið að magnast.
Jú dagurinn í dag er dómsdagur í okkar lífi, hver er staðan á krabbameininu eru lyfin að virka?
Við erum búin að vita af þessum degi í tvo mánuði og ég játa að síðastliðna viku eða svo hef ég fundið hvernig hr Kvíði og frú Ótti hafa tekið sér fótfestu í hjartanu. Ég hef vandað mig að vera í núinu og að grípa hugann þegar hann fer að sjá fyrir sér slæma niðurstöðu, þegar hr Kvíði og frú Ótti ná að stýra líðan minni. Þar sem ég er svo óendanlega mennsk þá hefur hausinn annað slagið náð sér á flug og hugsanir eins og: Síðasta lyfjameðferð virkaði ekki, ætli ég eldist ein, hata þetta krabbamein og eitthvað í þessum dúr. Hef haft erfiðar draumfarir, dreymt allskonar slæm tákn að mér hefur fundist (er oftar en ekki berdreymin). Dreymdi svört kerti og að ég félli af risaturni og…
Einnig hefur síðasta vika einkennst af svefnleysi og álagsþreytu. Svona hefur streita mikil áhrif á mig, ég á reyndar sögu um mikið álag og mikla streitu. Læknar og sálfræðingar tala um áfallastreitu en ég reyni að forðast þann stimpil en staðreyndin er sú að ég hef miklu minna viðnám en áður.
En aftur að deginum í dag!
Vaknaði kl 05.30 í morgun og fann strax fyrir hr Kvíða og frú Ótta, náði að ýta þeim frá og eiga hefðbundinn morgun. Við vorum svo mætt upp á Krabbó kl 08.10 og þá fór hjartað að hamast af alvöru og hausinn á milljón. Tíminn ætlaði að drepa mig en hann leið svo ósköp hægt á meðan beðið var eftir lækninum. Þegar læknirinn svo birtist, voru önnur hjón á undan!
Loksins kom röðin að okkur, kella orðinn sveitt af stressi og farin að anda grunnt.
”Góðar fréttir, æxlin hafa minnkað”
Gleðin spratt fram og afslöppunarbylgja helltist yfir mig, ég þakkaði almættinu í huganum og skellti kossi á karlinn.
Það var hlegið og gantast og dr Krabbi var besta og mesta manneskja á jörðinni í minum huga eftir þessar gleðifréttir.
Wow… þvílík jólagjöf. Með bros á vör héldum við inn á deild með framtíðarplan í vasanum, sama meðferð næstu 3 mánuði svo dómsdagur aftur og spurning hvort geislameðferð væri hugsanleg sett í gang þá.
Hjúkkan okkar (já við eigum hana) tók fréttunum fagnandi og svo hófst innspýting lyfja.
Þvílíkur léttir sem gerði átta klukkustunda viðveru á krabbó mun auðveldari en mikið var gott að klára þetta og fara út í kuldann.
Með aulabros allan hringinn keyrði ég svo í Grafavoginn til mágkonu minnar sem hafði gert fyrir okkur fisk í raspi (eðal eftir svona dag).
Best í heimi að eiga að gott fólk sem einhvernvegin veit hvað fólk í okkar stöðu þarfnast án þess að vera beðið um það. Auðvitað var þetta besti fiskur í heimi.
Önnur sem ég elska á óskiljanlegan hátt og er í besta kvennabandi Íslands var búin að bjóða okkur á tónleika með bandinu en þegar heim var komið var engin orka eftir svo við urðum að afþakka það með trega en erum svo þakklát fyrir hana í okkar lífi.
Nú sit ég punkteruð með rauðvínsglas og skrifa þetta sem og skála fyrir lífinu 😉
Lifið er núna
Ást og friður
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!