Lostafengin vor- og sumarlína Tom Ford sem kynnt var á nýyfirstaðinni tískuviku í London þykir vera í hrópandi ósamræmi við klassískar og látlausar línur sem ófáir hönnuðir kynntu til sögunnar við sama tækifæri.
Meðan flatbotna skór, kynlausar draktir og sportlegir kvöldkjólar einkenndu tískuvikuna í London þykir Tom Ford enn einu sinni hafa sannað og sýnt hvers hugarflug hans er megnugt; en lína Tom Ford ber sterkan keim af áhrifum frá Burlesque tískunni.
Gullnar geirvörtudúllur, aðsniðnar og ögrandi síðbuxur – svartir tónar og gylltir þræðir, silfrað yfirbragð með bleikum og grænum tónum ráða ríkjum í vor- og sumarlínu Tom Ford árið 2015.
Logagyllt minipils, glitrandi jakkafatnaður, dulúðugar skikkjur og glimmerbryddingar. Svimandi háir pinnahælar í svörtum tónum og dýramynstur. Allt er Tom Ford leyfilegt.
Enginn vafi leikur á því að Tom Ford tók tískupallana í London með stormandi áhlaupi, nær óþægilega og eggjandi áleitinn í viðleitni sinni til að skapa ögrandi línu sem hæfir flestum tilefnum og sem áður, tekur tískuheimurinn við sér þegar Tom Ford mælir.
Hér má sjá vor- og sumarlínu Tom Ford árið 2015:
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.